Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 11898/2022)

Kvartað var yfir frágangi Menntasjóðs námsmanna á láni.  

Kvörtunin fól fyrst og fremst í sér almenna athugasemd við starfshætti sjóðsins en ekki eiginlega kvörtun og var afgreiðslu hennar lokið í ljósi þess. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 3. nóvember 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. október sl. yfir frágangi Menntasjóðs námsmanna á láni sonar yðar. Í kvörtuninni kemur fram að hann hafi borið málið undir stjórn sjóðsins. Þér teljið engu að síður rétt að umboðsmaður taki málið til athugunar í ljósi þess að fjöldi námsmanna muni hefja afborganir námslána um þessar mundir.

Af kvörtun yðar verður ráðið að í henni felist fyrst og fremst almenn athugasemd við starfshætti sjóðsins en ekki eiginleg kvörtun vegna máls sonar yðar. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur einhvern þann sem lögin taka til hafa beitt sig rangsleitni kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af framangreindu ákvæði laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi stjórnvalda verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grund­velli kvörtunar en farið er yfir almennar ábendingar sem umboðsmanni berast með tilliti til þess hvort tilefni sé til að umboðsmaður taki atriði sem koma fram í þeim til athugunar að eigin frumkvæði. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Ef sonur yðar telur sig enn beittan rangsleitni að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar er honum fært, eða yður fyrir hans hönd og þá samkvæmt umboði, heimilt að leita til mín á ný innan árs frá því er lyktir máls liggja fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.