Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11502/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá Landhelgisgæslu Íslands.  

Út frá gögnum málsins og að virtum nánari skýringum Landhelgisgæslunnar varð ekki annað séð en farið hefði fram heildstætt mat og samanburður umsækjenda á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem gefin voru til kynna í auglýsingu um starfið, sér í lagi m.t.t. menntunar- og hæfniskrafna. Að virtu svigrúmi stjórnvalda í ráðningarmálum taldi umboðsmaður sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við hver hefði verið metinn hæfastur eða ákvörðunina um að ráða hann. Þá varð ekki annað ráðið en stofnunin hefði viðurkennt að ákvörðun um tímabundna ráðningu hefði ekki verið í samræmi við reglur um auglýsingu lausra starfa. Lauk umboðsmaður því umfjöllun sinni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. nóvember 2022.

   

   

I

Vísað til kvörtunar yðar 22. janúar sl. yfir ráðningu í starf gæða- og öryggisstjóra hjá Landhelgisgæslu Íslands. Í tilefni kvörtunarinnar voru Landhelgisgæslunni rituð bréf 14. febrúar, 25. maí og 19. september sl. þar sem umboðsmaður óskaði eftir afriti af gögnum málsins og skýringum á þar tilgreindum atriðum, annars vegar um samanburð umsækjenda og hins vegar um síðari ráðningu í starfið eftir að umsækjandinn sem ráðinn var í janúar 2021 sagði starfinu lausu síðla þess árs. Svör bárust með bréfum Landhelgisgæslunnar 15. mars, 20. júní og 18. október sl. og athugasemdir yðar þar að lútandi bárust 17. júlí og 1. nóvember sl. 

   

II

Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Að íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðunina ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða slík sjónarmið allt að einu að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta um starfshæfni. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að það er stjórnvaldið sem ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi verða þau að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram á væntanlegri frammistöðu umsækjenda í starfinu og þá með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar. Hafi stjórnvald aflað fullnægjandi upplýsinga um það hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar, svo og sýnt fram á að slíkur heildstæður samanburður hafi farið fram, hefur hins vegar verið litið svo á, í framkvæmd umboðsmanns sem og dómstóla, að það njóti töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi teljist hæfastur.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í því sambandi legg ég á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem tekur ákvörðun um hvern á að ráða í opinbert starf. Af þessu leiðir að það er ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í tiltekið starf heldur að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið lögmæt.

Eftir yfirferð á gögnum málsins og að virtum nánari skýringum Landhelgisgæslu Íslands 20. júní sl. verður ekki annað séð en að fram hafi farið heildstætt mat og samanburður umsækjenda á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem gefin voru til kynna í auglýsingu um starfið, sér í lagi m.t.t. menntunar- og hæfniskrafna. Að virtu svigrúmi stjórnvalda í ráðningarmálum tel ég mig því ekki hafa forsendur til athugasemda við niðurstöðu Landhelgisgæslunnar um hvaða umsækjandi hafi verið metinn hæfastur eða ákvörðun stofnunarinnar um að ráða hann.

  

III

Í bréfi Landhelgisgæslu Íslands 20. júní sl. kom fram að nýr gæða- og öryggisstjóri hefði verið ráðinn tímabundið frá og með 1. nóvember 2021 án þess að starfið hefði þá verið auglýst. Í síðara bréfi Landhelgisgæslunnar, 18. október sl., var gerð grein fyrir aðdraganda ráðningarinnar og þeim skilningi stofnunarinnar á þeim tíma sem ráðningin átti sér stað hefði verið um að ræða aðstæður sem féllu undir undanþágu frá auglýsingaskyldu, sbr. 2. tölulið 2. gr. reglna nr. 1000/2019 um auglýsingar lausra stafa. Segir í bréfinu að það hafi verið mat stofnunarinnar að þær aðstæður sem uppi voru féllu undir „sérstakar aðstæður“ í skilningi ákvæðisins. Jafnframt var bent á að álit umboðsmanns Alþingis 24. mars sl. í máli nr. 10592/2020, þar sem m.a. er fjallað um túlkun þessa ákvæðis, hefði ekki legið fyrir þegar ráðningin átti sér stað. Enn fremur var upplýst að auglýsing um laust starf gæða- og öryggisstjóra myndi verða birt 19. október sl. og hefur það gengið eftir.  

Af framangreindum svörum Landhelgisgæslunnar verður ekki annað ráðið en að stofnunin hafi viðurkennt að umrædd ákvörðun um tímabundna ráðningu í starf gæða- og öryggisstjóra hafi ekki verið í samræmi við lög.  

Það er hlutverk umboðs­manns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Störf umboðsmanns eru þess eðlis að viðbrögð hans geta almennt ekki orðið önnur en að lýsa þeirri afstöðu að meðferð mála hjá stjórnvöldum hafi ekki verið í samræmi við lög og vandaða stjórn­sýsluhætti og eftir atvikum beina þeim tilmælum til stjórnvalda að endur­skoða einstök mál, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

   

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.