Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 11891/2022)

Kvartað var yfir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála í tengslum við útgáfu greinargerðar um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi árin 1997-2007.

Þar sem viðkomandi hafði ekki borið athugasemdir sínar, vegna greinargerðarinnar og starfshátta stofnunarinnar í tengslum við gerð hennar, undir félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðuneyti hans voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. október sl. sem beinist að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) í tengslum við útgáfu greinargerðar um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi árin 1997-2007 sem birt var 14. september sl. Af kvörtuninni verður ráðið að þér gerið athugasemdir við starfshætti forstjóra og starfsfólks stofnunarinnar við gerð greinargerðarinnar, sem m.a. lúta að framkomu við yður og aðra þá sem vistaðir voru á meðferðferðarheimilinu og áttu einnig í samskiptum við stofnunina í tengslum við gerð greinargerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 88/2021, um gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, heyrir stofnunin undir félags- og vinnumarkaðsráðherra. Í því felst m.a. að stofnunin lýtur yfirstjórn og eftirliti ráðherra sem hefur viss stjórnunarúrræði gagnvart stofnuninni og fer með aga- og veitingarvald gagnvart forstjóra hennar. Samkvæmt því sem fram kemur í ofannefndri skýrslu sem nú er birt á vef Stjórnarráðsins (www.stjornarradid.is) var forvera GEV, Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar, falið af þáverandi félags- og barnamálaráðherra, nú félags- og vinnumarkaðsráðherra, að vinna téða skýrslu. Í því sambandi er m.a. vísað til þess að GEV fari samkvæmt lögum nr. 88/2021 með eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli m.a. barnaverndarlaga og laga um Barna- og fjölskyldustofu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum af máli, og eftir atvikum ákvörðunum þeirra, sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila eins og umboðsmanns, sem stendur utan stjórnkerfis þeirra, með kvartanir. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið að þegar ráðherra fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir sé rétt að hann fái tækifæri til að fjalla um mál og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum sem hann hefur áður en mál er tekið til athugunar á grundvelli kvörtunar. Er þá horft til þess að ráðherra getur á þessum grundvelli gefið forstöðumanni bindandi fyrirmæli um starfshætti stofnunar.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að yður hafi verið bent á að þér getið borið athugasemdir yðar vegna greinargerðarinnar og starfshátta stofnunarinnar í tengslum við gerð hennar undir félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðuneyti hans. Að þessu gættu, og eins og kvörtunin liggur fyrir núna, tel ég rétt að þér leitið fyrst með athugasemdir yðar til ráðherra áður en ég fjalla um hana. Ef þér teljið yður ekki fá viðunandi úrlausn með þeim hætti getið þér að sjálfsögðu leitað til umboðsmanns á ný.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég að svo stöddu umfjöllun minni um kvörtunina. Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða leiðbeininga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns í síma 510-6700 á milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing eða með tölvupósti á netfangið postur@umbodsmadur.is.