Kosningar.

(Mál nr. 11894/2022)

Kvartað var yfir þeirri niðurstöðu ríkissaksóknara að staðfesta ákvörðun héraðssaksóknara um að vísa frá kæru vegna ætlaðra brota við framkvæmd talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi við kosningar til Alþingis 25. september 2021.  

Ekki varð annað ráðið af ákvörðuninni en að embættið hefði m.a. lagt efnislegt mat á hvort unnt væri að heimfæra ætluð brot til refsilaga. Af gögnum málsins og að virtu því svigrúmi sem játa yrði handhöfum ákæruvalds, við mat á því hvort tilefni sé til að hefja sakamálarannsókn eða halda henni áfram, taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu ríkissaksóknara í málinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 24. október sl. yfir þeirri niðurstöðu ríkissaksóknara 19. sama mánaðar að staðfesta ákvörðun héraðssaksóknara 20. júní sl. í máli nr. 313-2022-002439 um að vísa frá kæru yðar vegna ætlaðra brota við framkvæmd talningar yfirkjörstjórnar á greiddum atkvæðum í Norðvesturkjördæmi við kosningar til Alþingis 25. september 2021.

Samkvæmt 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vísar lögregla frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn sakamáls. Jafnframt getur lögregla, sé rannsókn hafin, hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Samkvæmt þessu hefur löggjafinn veitt lögreglu verulegt svigrúm til mats á því hvort hvort grundvöllur sé fyrir að hefja rannsókn sakamáls eða halda henni áfram.

Þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum svigrúm til mats við ákvörðun sína beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvöld hafi gætt málsmeðferðarreglna, lögfestra og ólög­festra, hvort byggt hafi verið á málefnalegum sjónarmiðum og hvort forsvaranlegar ályktanir hafi verið dregnar af gögnum þess. Svo sem áður greinir ber í þessu sambandi að hafa í huga að ríkissaksóknari og aðrir hand­hafar ákæruvalds hafa ákveðið svigrúm, m.a. að virtu eðli og alvarleika ætlaðs brots og sönnunarstöðu, til að meta hvort fjár­munum, mannafla og öðrum takmörkuðum gæðum skuli varið í þágu rann­sóknar. Umboðsmaður er hins vegar almennt ekki í aðstöðu til að leggja sjálfstætt mat á hvort efni séu til að hefja eða halda rannsókn sakamáls áfram og þá með það fyrir augum að leggja grundvöll að ákvörðun um saksókn.

Af kvörtuninni verður ráðið að athugasemdir yðar lúti einkum að því að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort sú háttsemi sem kæran laut að væri refsiverð samkvæmt 124. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, sem voru í gildi þegar kosningarnar fóru fram. Í fyrrgreindri ákvörðun héraðssaksóknara, sem staðfest var af ríkissaksóknara, kom þó fram að það væri afstaða embættisins að verulegur vafi léki á því hvort refsiákvæði laga nr. 24/2000 ættu við um þá ætluðu háttsemi sem kæran laut að. Verður þannig ekki annað ráðið af ákvörðuninni en að embættið hafi m.a. lagt efnis­legt mat á hvort unnt væri að heimfæra ætluð brot til refsi­laga.

Eftir að hafa kynnt mér ákvörðun héraðssaksóknara, og að virtu því svigrúmi sem játa verður handhöfum ákæruvalds við mat á því hvort tilefni sé til að hefja sakamálarannsókn eða halda henni áfram, tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við fyrrgreinda afstöðu ríkissaksóknara í málinu. Lýk ég því umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.