Vopn.

(Mál nr. 11902/2022)

Gerðar voru ýmsar athugasemdir við efni bréfs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem greint var frá viðmiðum lögreglunnar um skilyrði til innflutnings safnvopna. 

Af kvörtuninni varð hvorki ráðið að sjónarmiðunum hefði verið komið á framfæri við lögreglustjórann né dómsmálaráðuneytið og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 27. október sl. þar sem þér komið á framfæri ýmsum athugasemdum við efni bréfs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. október sl., þar sem greint er frá viðmiðum lögreglunnar um skilyrði til innflutnings safnvopna.

Í tilefni af kvörtun yðar bendi ég á að í 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um það að dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Með vísan til þessa, sem og þeirrar grundvallar­reglu íslenskrar stjórnskipunar að ráðherrar fari ávallt með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema að hún sé að lögum undanskilin, tel ég að það verði að ganga út frá því að starfsemi lögreglustjóra falli undir eftirlit dómsmálaráðherra. Í slíkum málum ber ráðherra sem æðra stjórnvaldi að hafa með því eftirlit hvort stjórnsýsla og störf embættis lögreglustjóra séu í samræmi við lög og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins að því marki sem það fellur ekki undir hlutverk nefndar sem hefur eftirlit með störfum lögreglu, sbr. 35. gr. laga nr. 90/1996.

Ástæða þess að ég geri grein fyrir þessu er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta megi máli til æðra stjórn­valds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir framangreint ákvæði á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leið­rétta ákvarðanir áður en farið er til aðila utan stjórn­kerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið komið sjónarmiðum yðar á framfæri við lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða eftir atvikum dómsmálaráðuneytið. Að þessu gættu, og eins og kvörtunin liggur fyrir núna, tel ég rétt að þér leitið fyrst með athugasemdir yðar til framangreindra stjórnvalda áður en ég fjalla um hana. Ef þér teljið yður enn rangindum beitta að fenginni afstöðu dómsmálaráðherra getið þér að leitað til umboðsmanns á ný.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.