Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11905/2022)

Óskað var eftir leiðbeiningum um möguleika á upplýsingaöflun í málum sem ekki verða kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. 

Það er hvorki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir né svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt og því voru ekki skilyrði til að hann fjallaði frekar um erindið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. október sl. þar sem þér óskið þess að umboðsmaður leiðbeini yður um möguleika á upplýsingaöflun í málum sem ekki verða kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með kvörtun yðar fylgdi úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 1103/2022 frá 19. október sl. þar sem kæru yðar vegna afgreiðslu ríkisendurskoðanda á beiðni yðar um upplýsingar var vísað frá nefndinni með vísan til þess að mál er varði afgreiðslu ríkisendurskoðanda sæti ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­­mann Alþingis, er hlut­verk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir m.a. að það er ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum.

Af kvörtun yðar verður helst ráðið að hún lúti að almennum álitaefnum á sviði upplýsingaréttar en beinist ekki að téðum úrskurði nefndarinnar. Því eru ekki skilyrði að lögum fyrir því að ég fjalli frekar um erindi yðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.