Almannatryggingar.

(Mál nr. 11907/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.  

Í kvörtuninni kom fram að ákvörðunin hefði verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 2. nóvember sl. yfir þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar 20. júlí sl. að fella niður rétt yðar til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.    

Í kvörtuninni kom fram að þér hefðuð kært téða ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála. Af því tilefni ritaði starfsmaður skrifstofu umboðsmanns yður tölvubréf 3. nóvember sl. þar sem þess var óskað að þér afhentuð umboðsmanni afrit af gögnum sem varpað gætu ljósi á kæru yðar til nefndarinnar. Með tölvubréfi 4. nóvember sl. bárust umbeðin gögn frá yður, þ. á m. greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki liggur annað fyrir en að mál yðar sé enn til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.