Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11816/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá Orkustofnun og því að beiðnum um upplýsingar og gögn hefði ekki verið svarað.  

Í kjölfar eftirgrennslan umboðsmanns svaraði Orkustofnun erindum viðkomandi, veitti honum aðgang að þeim upplýsingum sem óskað var eftir og bað hann afsökunar á þeirri töf sem hefði orðið. Þá varð ekki annað ráðið en mat Orkustofnunar á umsókn þess sem kvartaði hefði byggst á sjónarmiðum sem auglýsing um starfið hefði gefið til kynna. Ekki yrði betur séð en þau hefðu verið málefnaleg og heildstætt mat umsóknargagna hefði ráðið úrslitum um hvaða umsækjendur kæmu til frekara mats. Að þessu virtu og að teknu tilliti til svigrúms stjórnvalda við má á því hverja boða skuli í viðtal taldi umboðsmaður ekki forsendur til athugasemda við mat á umsókninni.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. nóvember 2022.

  

  

Vísað til kvörtunar yðar 22. ágúst sl. yfir ráðningu í starf [...] hjá Orkustofnun í janúar sl., sem þér sóttuð um. Í kvörtuninni gerðuð þér athugasemdir við mat á hæfni yðar, þ.m.t. að yður hefði ekki verið boðið viðtal, og að beiðnum yðar um upplýsingar og afrit gagna hefði ekki verið svarað nema að hluta. 

Í tilefni kvörtunarinnar var Orkustofnun ritað bréf 7. september sl. þar sem umboðsmaður óskaði eftir afriti af gögnum málsins og upplýsingum um hvað liði afgreiðslu á erindum yðar. Svör og gögn bárust með bréfi stofnunarinnar 5. október sl. Í svarbréfinu var upplýst að Orkustofnun hefði samhliða því svarað ósvöruðum erindum yðar og veitt yður aðgang að þeim upplýsingum sem þér hefðuð óskað eftir. Meðal gagnanna frá Orkustofnun var afrit af bréfi stofnunarinnar til yðar 5. október sl. þar sem í niðurlagi bréfsins er beðist afsökunar á þeirri töf sem varð á afgreiðslu erinda yðar. Að þessu virtu er ekki ástæða til að fjalla nánar um þennan þátt kvörtunar yðar.

Í ljósi þess að kvörtun yðar afmarkast einna helst við að yður hafi ekki verið boðið til viðtals og það mat Orkustofnunar sem lá þeirri ákvörðun til grundvallar tek ég fram að almennt hefur verið talið heimilt að kalla einungis þá umsækjendur sem helst þykja koma til álita í starfið í slíkt viðtal án þess að með því sé farið í bága við jafnræðisreglu eða rannsóknar­reglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hefur einnig almennt verið lagt til grundvallar í íslenskum stjórnsýslurétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur í hópi umsækjenda. Undirbúningur slíkrar ákvörðunar og þar með val úr hópi umsækjenda þarf þó að byggjast á viðhlítandi athugun á fyrirliggjandi gögnum um umsækjendur að teknu tilliti til lögmætra og málefnalegra sjónarmiða.

Í gögnum frá Orkustofnun koma fram upplýsingar um viðmið grunnmats, þ.e. þess mats og samanburðar á umsækjendum sem fram fór á grundvelli sjálfra umsóknanna og fylgiskjala þeirra. Samkvæmt gögnunum var þeim 14 umsækjendum sem flest heildarstig hlutu í grunnmati boðið viðtal og mun sá umsækjandi sem boðaður var til viðtals sem fæst stig hlaut hafa hlotið 630 stig. Fram kemur að þér hlutuð 590 stig og voruð númer 20 í röð umsækjenda eftir heildarstigum í grunnmatinu. Eftir skoðun þessara gagna og upplýsinga tel ég að ekki verði annað ráðið en að matið hafi byggst á sjónarmiðum sem auglýsing um starfið gaf til kynna sem ég fæ ekki betur séð en hafi verið málefnaleg og að heildstætt mat umsóknargagna hafi ráðið úrslitum um hvaða umsækjendur komu til frekara mats. Að þessu virtu og að teknu tilliti til fyrrgreinds svigrúms stjórnvalda við mat á því hverja skuli boða í viðtal á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem lögð eru til grundvallar tel ég ekki forsendur til athugasemda við mat Orkustofnunar á umsókn yðar eða þá ákvörðun að þér og aðrir umsækjendur með færri en 630 stig kæmuð ekki til frekara mats.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.