Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11837/2022)

Kvartað var yfir töfum hjá Reykjavíkurborg á afgreiðslu beiðni um milliflutning í annað leiguhúsnæði á vegum borgarinnar.  

Af svörum borgarinnar til umboðsmanns varð ekki annað ráðið en unnið væri að því að verða við beiðni viðkomandi og því ekki skilyrði til að hann fjallaði frekar um málið að svo stöddu. Í ljósi þess hve langan tíma málið hafði tekið og hve miklum takmörkunum það er háð hvernig umboðsmaður getur haft bein afskipti af málsmeðferð stjórnvalda, ss. þegar kvörtun lýtur að töfum á afgreiðslu máls sem enn er til meðferðar, benti hann viðkomandi á þann möguleika að leita til úrskurðarnefndar velferðarmála með sérstaka kæru vegna tafa.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. nóvember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 12. september sl. yfir Reykjavíkurborg og töfum á afgreiðslu beiðni um milliflutning í annað leiguhúsnæði á vegum borgarinnar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Reykjavíkurborg ritað bréf 3. október sl. þar sem þess var óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um hvað liði meðferð og afgreiðslu umsóknar yðar sem og hver staða yðar væri með tilliti til úthlutunar. Í svarbréfi sveitarfélagsins sem barst 17. október sl. kemur fram að beiðni yðar 9. mars 2021 um milliflutning hafi verið samþykkt 30. mars 2021 og að þér séuð á biðlista eftir milliflutningi. Vegna þeirra óska sem þér hafið sett fram varðandi húsnæði takmarkist framboð þeirra íbúða sem til greina kemur að úthluta yður. Því hafi ekki enn komið til milliflutnings.

Af svörum Reykjavíkurborgar er ljóst að mál yðar hefur dregist nokkuð. Hins vegar verður ekki annað ráðið en að unnið sé að því að verða við beiðni yðar þó ekki liggi enn fyrir hvenær niðurstöðu sé að vænta. Af þessu tilefni tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Með hliðsjón af þessu  bendi ég yður á að í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, er aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ástæða þess að ég bendi á framangreint er sú að þegar umboðsmanni berast kvartanir er lúta að töfum á afgreiðslu mála hefur hann almennt talið rétt að óska eftir svörum frá viðkomandi stjórnvaldi um hvað líði afgreiðslu og meðferð málsins á grundvelli þeirra heimilda sem honum eru fengnar í 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt lögunum er það þó verulegum takmörkunum háð að hvaða leyti umboðs­maður getur haft bein afskipti af málsmeðferð stjórnvalda, s.s. þegar kvörtun lýtur að töfum á afgreiðslu máls sem enn er til meðferðar. Í ljósi þess að mál yðar er enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu eru ekki skilyrði að lögum til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að því leyti sem hún snýr að málshraða sveitarfélagsins. 

Að framangreindu virtu tel ég rétt að þér freistið þess að kæra drátt á afgreiðslu máls yðar til nefndarinnar. Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar. Farið þér þá leið að leita til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins getið þér leitað til umboðsmanns að nýju teljið þér enn á rétt yðar hallað að fenginni afstöðu hennar.