Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 11858/2022)

Kvartað var yfir að ekki hefði fengist beingreiðslusamningur hjá Reykjavíkurborg þrátt fyrir umsókn þess efnis hefði verið samþykkt nokkrum mánuðum fyrr.  

Í ljós kom að málsmeðferð borgarinnar vegna afgreiðslu umsókna viðkomandi hafði verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu. Svör Reykjavíkurborgar við fyrirspurnarbréfi umboðsmanns gáfu aftur á móti tilefni til að árétta við sveitarfélagið hvað felst í eftirliti hans og að það væri ekki þeirra stjórnvalda og sveitarfélaga sem falla undir það, að meta hvort kvörtun gefi nægilegt tilefni til nánari athugunar og uppfylli skilyrði laga um umboðsmann Alþingis að öðru leyti.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A yfir því að hann hafi ekki enn fengið beingreiðslusamning hjá Reykjavíkurborg þrátt fyrir að umsókn hans þar að lútandi hafi verið samþykkt af hálfu sveitarfélagsins 9. júní sl.

Í tilefni af kvörtuninni var Reykjavíkurborg ritað bréf 19. október sl. þar sem þess var óskað að sveitarfélagið veitti umboðsmanni upplýsingar um stöðu málsins og hvort og þá hvenær stæði til að veita A samþykkta þjónustu. Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem barst 1. nóvember sl. kemur fram að A hafi kært málsmeðferð sveitarfélagsins vegna afgreiðslu umsókna hans um notendastýrða persónulega aðstoð og beingreiðslusamning til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Af þessu tilefni tek ég fram samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið.Í ljósi framangreinds liggur fyrir að þér hafið kært málsmeðferð sveitarfélagsins í máli skjólstæðings yðar til úrskurðarnefndar velferðarmála og verður ekki annað ráðið en að málið sé þar enn til meðferðar.

Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu og lýk ég því umfjöllun minni um hana með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Telji A sig enn vera beittan rangsleitni að lokinni málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar getur hann, eða þér fyrir hans hönd, leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi. Kvörtunin, og viðbrögð Reykjavíkurborgar vegna fyrirspurnar umboðsmanns, hefur jafnframt orðið mér tilefni til þess að rita sveitarfélaginu hjálagt bréf. Þær ábendingar sem þar koma fram eru þó ekki til þess fallnar að hafa áhrif á niðurstöðu mína vegna málsins.

   

 


  

  

Bréf umboðsmanns til Reykjavíkurvíkurborgar 14. nóvember 2022.

 

Vísað er til fyrri samskipta vegna kvörtunar B réttindagæslumanns fatlaðs fólks, f.h. A. Laut kvörtunin að því að A hafi ekki enn fengið beingreiðslusamning þrátt fyrir að umsókn þar að lútandi hafi verið samþykkt af hálfu Reykjavíkurborgar 9. júní sl. Ég hef nú lokið athugun minni vegna kvörtunarinnar, sbr. hjálagt bréf.

Í tilefni af kvörtuninni var velferðarsviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 19. október sl. þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrðu veittar upplýsingar um stöðu málsins og hvort og þá hvenær stæði til að veita A samþykkta þjónustu. Jafnframt var þess óskað að öll gögn málsins yrðu afhent. Í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, en því fylgdu engin gögn, sem barst 1. nóvember sl. kemur fram að A hafi kært málsmeðferð sveitarfélagsins vegna afgreiðslu umsókna hans um notendastýrða persónulega aðstoð og beingreiðslusamning til úrskurðarnefndar velferðarmála. Jafnframt segir í svari velferðarsviðs:

Með vísan til þess að mál [A] er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála má ætla að umboðsmaður Alþingis taki málið ekki til frekari skoðuna fyrr en það er til lykta leitt hjá æðra stjórnvaldi, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997. Með vísan til þess telur velferðarsvið, að svo stöddu, ekki ástæðu til þess að rekja málavexti frekar [...].

Af þessu tilefni tek ég fram að það er umboðsmanns, en ekki þeirra stjórnvalda og sveitarfélaga sem falla undir eftirlit umboðsmanns, að meta hvort kvörtun gefi nægilegt tilefni til nánari athugunar og uppfylli skilyrði laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að öðru leyti. Þá ber stjórnvöldum að eftirláta umboðsmanni mat á því hvaða upplýsingar eru honum nauðsynlegar til þess að hann geti lagt fullnægjandi grundvöll að athugunum sínum. Í þessu sambandi er ástæða til að benda á að þegar umboðsmanni berast kvartanir er lúta að töfum á afgreiðslu mála hefur hann almennt talið rétt að óska eftir svörum frá viðkomandi stjórnvaldi um hvað líði afgreiðslu og meðferð málsins á grundvelli þeirra heimilda sem honum eru fengnar í 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997. Upplýsingar sem umboðsmanni berast í slíku máli kunna ekki eingöngu að hafa þýðingu fyrir meðferð þess máls heldur kunna þær einnig að varpa ljósi á hvort fyrir hendi sé kerfisbundinn vandi eða misbrestur í afgreiðslu mála hjá viðkomandi stjórnvaldi. Slíkar upplýsingar sem fengnar eru í tengslum við tiltekið mál geta þannig orðið umboðsmanni tilefni til þess að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði á grundvelli þeirrar heimildar sem honum er fengin í 5. gr.  laga nr. 85/1997.

Ég vil því að gefnu tilefni benda velferðarsviði Reykjavíkurborgar á að hafa ofangreint framvegis í huga vegna fyrirspurna sem sveitarfélaginu kunna að berast frá umboðsmanni.