Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11877/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu dómsálaráðuneytisins á kæru vegna umgengnismáls hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.  

Ráðuneytið upplýsti að viðkomandi hefði verið tilkynnt að málið hefði verið sameinað öðru kærumáli hans þar sem þau vörðuðu sömu málsatvik. Stefnt væri að því að ljúka afgreiðslu sameinaða málsins á næstu vikum. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. október sl. sem beinist að dómsmálaráðuneytinu og lýtur að töfum á afgreiðslu kæru yðar frá 15. febrúar 2022 vegna umgengnismáls sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Í tilefni af kvörtun yðar var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 20. október sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Nú hafa borist svör frá ráðuneytinu 11. nóvember sl. þar sem fram kemur að með bréfi þess 10. nóvember sl. hafi yður verið tilkynnt að málið hefði verið sameinað öðru kærumáli yðar hjá ráðuneytinu frá 11. maí 2022 þar sem þau teljist varða sömu málsatvik. Í bréfi ráðuneytisins til yðar greinir að stefnt sé að því að ljúka afgreiðslu hins sameinaða máls á næstu vikum.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu máls og í ljósi  áforma stofnunarinnar um að ljúka því á næstunni tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni að svo stöddu.

Í kvörtun yðar óskið þér eftir upplýsingum um lagagrundvöll niðurstöðu umboðsmanns í fyrra máli yðar nr. 11826/2022 sem lokið var með bréfi 29. september sl. Í tilefni af því er áréttað, svo sem fram kom í téðu bréfi að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafa lokið umfjöllun sinni um það. Þar sem ljóst var að mál yðar væri til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu brustu lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti fjallað um það.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.