Bótaábyrgð ríkisins.

(Mál nr. 11895/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar náttúruhamfaratrygginga þar sem endurupptökubeiðni þriggja mála var hafnað.  

Áður hafði verið leitað til umboðsmanns vegna þessa og þeim málum lokið án athugasemda hans. Eftir að hafa kynnt sér kvörtunina nú, úrskurð nefndarinnar og önnur fyrirliggjandi gögn, þ. á m. gögn sem lágu fyrir vegna fyrri málanna, varð ekki annað ráðið en að fullnægjandi mat hefði verið lagt á beiðni um endurupptöku. Hafði umboðsmaður þá sérstaklega í huga að beiðnin virtist í grundvallaratriðum hafa byggst á sömu sjónarmiðum og beiðni sem nefndin hafði áður synjað. Ekki væri tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar nú að synja beiðni um endurupptöku.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. nóvember 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. október sl., fyrir hönd A, B og C, sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar náttúruhamfaratryggingar í máli nr. 1/2022 frá 14. júní sl. Með úrskurðinum hafnaði nefndin endurupptökubeiðni þeirra vegna úrskurðar úrskurðarnefndar samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, frá 29. janúar 2016 í máli nr. 7/2013, og vegna úrskurða úrskurðarnefndar náttúruhamfaratryggingar frá 27. september 2019 í máli nr. 1/2019 og frá 28. september 2021 í máli nr. 2/2021.

Umbjóðendur yðar fóru fram á endurupptöku málanna á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvæðinu segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. mgr. 24. gr. laganna koma fram ákveðin tímamörk sem eiga við um rétt aðila á að mál hans verði tekið aftur til meðferðar. Í niðurlagi málsgreinarinnar er tekið fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Í úrskurði úrskurðarnefndar náttúruhamfaratryggingar í máli nr. 1/2022 var tekið fram að beiðni umbjóðenda yðar um endurupptöku byggðist á því að úrskurðarnefndin hefði aldrei fjallað efnislega um niðurstöðu yfirmatsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 2018 um það hvort fasteignin X hefði skemmst í jarðskjálftanum 2008. Áréttaði nefndin að yfirmatsgerðin hefði ekki legið fyrir við meðferð máls nr. 1/2019, en hún hefði hins vegar legið fyrir við meðferð máls nr. 2/2021. Ítrekaði nefndin niðurstöðu sína í því máli, þ.e. að þau sjónarmið umbjóðenda yðar um að yfirmatsgerðin væri röng gætu ekki leitt til endurupptöku á eldri úrskurðum nefndarinnar þar sem ekki hefði verið byggt á yfirmatsgerðinni. Nefndin tók þá fram að umbjóðendur yðar hefðu ekki á neinn hátt leitt líkur að því að úrskurðirnir hefðu byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Jafnframt taldi nefndin að efni þeirra fræðigreina sem umbjóðendur yðar hefðu vísað til gætu ekki verið grundvöllur endurupptöku úrskurðar sem byggði á skoðun og mati á umræddri fasteign. Var það niðurstaða nefndarinnar að ekki yrði talið að umbjóðendur yðar ættu rétt á endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga eða öðrum grunni.

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns fyrir hönd umbjóðenda yðar með kvörtun sem laut að framangreindum úrskurði í máli nr. 2/2021, sbr. mál hjá umboðsmanni nr. 11377/2021, og lauk athugun umboðsmanns á þeirri kvörtun með bréfi 8. desember 2021. Tveir af umbjóðendum yðar hafa einnig áður leitað til umboðsmanns með kvörtun sem laut að framangreindum úrskurði í máli nr. 1/2019, sbr. mál nr. 10245/2019. Lauk athugun umboðsmanns á því máli með bréfi 25. maí 2020. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar nú, úrskurð nefndarinnar og önnur fyrirliggjandi gögn, þ. á m. gögn sem þegar lágu fyrir vegna fyrri mála umbjóðenda yðar hjá umboðsmanni, fæ ég ekki annað ráðið en að fullnægjandi mat hafi verið lagt á beiðni umbjóðenda yðar um endurupptöku. Hef ég þá sérstaklega í huga að beiðni þeirra um endurupptöku virðist í grundvallaratriðum hafa byggst á sömu sjónarmiðum og beiðni sú sem synjað var með úrskurði nefndarinnar nr. 2/2021. Tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar að synja umbjóðendum yðar um endurupptöku.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.