Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11909/2022)

Kvartað var yfir synjun Fangelsismálastofnunar á reynslulausn.  

Þar sem ákvörðun Fangelsismálastofnunar hafði ekki verið kærð til dómsmálaráðuneytisins, líkt og leiðbeint hafði verið um, voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. nóvember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 28. október sl. yfir þeirri ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins 21. júní sl. að synja yður um reynslulausn.

Í ákvörðun Fangelsismálastofnunar var yður leiðbeint um að samkvæmt 95. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga væri heimilt að kæra synjun stofnunarinnar til dómsmálaráðuneytisins. Þar var auk þess tekið fram að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins í samræmi við 1. mgr. 27. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið kært ákvörðun Fangelsismálastofnunar til ráðuneytisins svo sem yður var leiðbeint um brestur lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Í tilefni af því að ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þriggja mánaða kærufrestur 1. mgr. 27. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé nú liðinn tel ég rétt að benda yður á að í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um þá aðstöðu þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Þannig segir í 1. mgr. 28. gr. að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. sömu málsgreinar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. Þér getið þannig freistað þess að bera málið undir ráðherra þótt kærufrestur samkvæmt lögum nr. 37/1993 sé liðinn ef þér teljið að þessi skilyrði séu uppfyllt. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hver ættu að vera viðbrögð ráðherra við slíkri beiðni.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.