Sveitarfélög.

(Mál nr. 11913/2022)

Kvartað var yfir tilkynningu á vefsíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innviðaráðuneytið, um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga. Taldi viðkomandi efni tilkynningarinnar í andstöðu við lög og koma í veg fyrir að hann gæti sinnt eftirlitsskyldu sinni.  

Bæði umboðsmaður og settur umboðsmaður höfðu áður fjallað um erindið. Voru þau sjónarmið og rök sem þá voru lögð til grundvallar óbreytt og með vísan til þeirra ekki skilyrði til að fjalla frekar um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. nóvember 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. nóvember sl. er lýtur að tilkynningu sem birt var á vefsíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innviðaráðuneytið, 19. mars 2021 um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga nr. 1/2020. Teljið þér efni tilkynningarinnar í andstöðu við lög og koma í veg fyrir að þér getið sinnt eftirlitsskyldu yðar sem fulltrúi í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar.

Með bréfi setts umboðsmanns til yðar 30. apríl 2021 í máli nr. 11045/2021 lauk hann athugun sinni á kvörtun yðar um sama efni með vísan til þess að ekki væru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, til að kvörtun yðar yrði tekin til frekari meðferðar. Var sú niðurstaða áréttuð með bréfi umboðsmanns til yðar 25. febrúar sl. í máli nr. 11527/2022.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að annað eigi nú við um þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar í áðurnefndum bréfum. Með vísan til þeirra röksemda sem fram koma í bréfi setts umboðsmanns til yðar 30. apríl 2021 brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og lýk ég því athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.