Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 11921/2022)

Kvartað var yfir tilhögun málsmeðferðar dómsmálaráðuneytisins í tilefni af kæru á úrskurði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um umgengni.  

Ekki varð annað ráðið en málið væri enn til meðferðar hjá ráðuneytinu og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 14. nóvember sl. þar sem þér gerið ýmsar athugasemdir við tilhögun málsmeðferðar dómsmálaráðuneytisins í tilefni af kæru yðar á úrskurði sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu um umgengni frá 11. maí sl.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Af kvörtun yðar er ljóst að þér hafið kært úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til dómsmálaráðuneytisins í samræmi við 78. gr. barnalaga nr. 76/2003 og verður ekki annað ráðið en að málið sé enn til meðferðar hjá ráðuneytinu.

Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu og lýk ég því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.