Almannatryggingar.

(Mál nr. 11737/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um endurútreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum.  

Út frá gögnum málsins, málsástæðum viðkomandi og forsendum nefndarinnar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Óumdeilt væri að Tryggingastofnun hefði greitt samkvæmt greiðsluáætlun sem miðað hefði við að viðkomandi hefði lægri tekjur á árinu en raun bar vitni. Þar af leiðandi hefðu verið greiddar hærri bætur en lög gerðu ráð fyrir.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. júní sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 9. febrúar sl. í máli nr. 571/2021 þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum yðar á árinu 2020 var staðfest. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið að ekki hafi verið tekið tillit til færslu leigutekna í tekjuáætlun ársins 2020. Jafnframt eruð þér ósáttir við að bætur sem þér fenguð greiddar vegna óhapps árið 2019 hafi komið til skerðingar greiðslna frá stofnuninni.

Í III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er mælt fyrir um lífeyristryggingar, þ. á m. greiðslur örorku- og ellilífeyris svo og fyrirkomulag þeirra. Í 16. gr. laganna er fjallað um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi þeirra greiðslna sem þar um ræðir. Er meginreglan sú, sbr. 2. mgr. 16. gr., að hvers kyns skattskyldar tekjur hafa áhrif á fjárhæð þeirra bóta sem Tryggingastofnun greiðir, þ. á m. fjármagnstekjur. Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar byggist útreikningur bóta í upphafi á upplýsingum um tekjur bótaþega sem m.a. stafa frá honum sjálfum, sbr. einnig 1. mgr. 39. gr. laganna, en bótaþega er á grundvelli þess ákvæðis einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar er mælt svo fyrir um í 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós við þann endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar skal Tryggingastofnun draga hinar ofgreiddu bætur frá bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til en stofnunin öðlast þó einnig endurkröfurétt á hendur viðkomandi bótaþega, sbr. 8. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 55. gr. laganna.

Af gögnum málsins verður ráðið að við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar fyrir árið 2020 hafi komið í ljós að þér hefðuð verið með hærri tekjur á árinu en áætlað var í upphafi og sem greiðsluáætlun miðaðist við.  Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið sú að þér hefðuð fengið 318.982 kr. ofgreiðslu.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, málsástæður yðar og forsendur nefndarinnar tel ég ekki efni til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Í þeim efnum hef ég einkum í huga að óumdeilt er í málinu að Tryggingastofnun greiddi yður samkvæmt greiðsluáætlun sem miðaði við að þér hefðuð lægri tekjur á árinu en raun varð og að þér fenguð þar af leiðandi greiddar hærri bætur en lög gera ráð fyrir.

Vegna athugasemda yðar í þá veru að bætur sem þér fenguð greiddar vegna óhapps árið 2019 hefði átt að flokka sem atvinnutekjur, og því ekki átt að koma til skerðingar greiðslna frá stofnuninni, bendi ég yður á að samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast m.a. skaðabætur og vátryggingarfé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur til skattskyldra tekna. Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007 er fjallað um fullan ellilífeyri og í 2. málsl. ákvæðisins er mælt fyrir um skerðingar á honum. Samkvæmt 3. og 4. málslið sömu málsgreinar er kveðið á um annars vegar almennt og hins vegar sérstakt frítekjumark, en með því er lífeyrisþegum veitt sú ívilnun að tekjur að ákveðnum fjárhæðum leiða ekki til skerðingar á fullum ellilífeyri. Um sérstakt frítekjumark, sem nam 1.200.000 kr. þegar atvik málsins áttu sér stað, segir hins vegar í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007 að það sé vegna „atvinnutekna“. Með vísan til þessa tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat nefndarinnar að slysadagpeningar sem þér fenguð á árinu 2020 flokkist til skattskyldra tekna, en ekki atvinnutekna, og hafi því ekki notið 1.200.000 kr. frítekjumarks.

Loks er því borið við í kvörtun yðar að þér hafið gert reka að því að tilkynna Tryggingastofnun um leigutekjur yðar í janúar 2020 sem stofnunin hafi ekki tekið tillit til við gerð tekjuáætlunar. Af því tilefni tek ég fram að það er á ábyrgð greiðsluþega að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og gögn málsins að öðru leyti tel ég ekki tilefni til frekari skoðunar málsins að þessu leyti. 

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.