Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 11765/2022)

Kvartað var yfir því að ekki hefði enn fengist notendastýrð persónuleg aðstoð þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá því í ágúst 2021. Í honum hefði verið lagt fyrir Reykjavíkurborg að hraða afgreiðslu málsins og veita samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið væri.  

Umboðsmaður benti á að í málinu reyndi á samverkan heimilda og hlutverk félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins, svo og samvinnu ráðuneytanna á þeim grunni, við framkvæmd löggjafar um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga á því sviði. Vegna upplýsinga sem umboðsmaður hefði aflað frá ráðuneytunum eða forverum þeirra í tengslum við önnur sambærileg mál væri honum kunnugt um þá almennu afstöðu ráðuneytis sveitarstjórnarmála að því væri aðeins unnt að taka mál til formlegrar umfjöllunar að fyrir lægi afstaða félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem fari með sértækt eftirlit með atvikum málsins. Viðkomandi gæti því freistað þess að leita til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins með mál sitt. Í framhaldinu gæti ráðuneyti sveitarstjórnarmála þurft að bregðast við. Að svo stöddu gæti umboðsmaður ekki haft frekari afskipti af málinu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2022.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar B, réttindagæslu­­manns fatlaðs fólks, fyrir hönd A, yfir því að A hafi ekki enn fengið notendastýrða persónulega aðstoð þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála 19. ágúst 2021 í máli nr. 208/2021. Í kvörtuninni kemur meðal annars fram að úrskurðar­nefnd velferðar­mála hafi kveðið upp úrskurð 19. ágúst 2021 þess efnis að afgreiðsla Reykjavíkurborgar hafi ekki verið í samræmi við máls­hraða­reglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og lagt fyrir sveitar­félagið að hraða afgreiðslu málsins og „veita samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er“.

Í tilefni af kvörtuninni var velferðarsviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 4. ágúst sl. og þess óskað að sveitarfélagið upplýsti umboðsmann um stöðu málsins og hvort og þá hvenær stæði til að veita A téða þjónustu. Í svari sveitarfélagsins 22. ágúst sl. segir m.a. að ekki sé unnt að upplýsa um það hvenær fyrirhugað sé að þjónustan muni hefjast þar sem það fjármagn sem til ráðstöfunar sé í samninga um notendastýrða persónulega aðstoð byggi á samþykktri fjár­veitingu frá ríkissjóði, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 og 3. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk.

  

II

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, með síðari breytingum, hefur félags- og vinnu­markaðs­­ráðherra eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum sé í samræmi við markmið þeirra, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og skuld­bindingar á sviðið mannréttindamála. Þá hefur ráðherra eftirlit með að réttindi fatlaðs fólks séu tryggð. Ráðherra getur ákveðið að eigin frumkvæði að taka til umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sam­kvæmt lögunum og hefur réttur aðila máls til að kæra ákvörðun ekki áhrif á þá heimild. Telji ráðuneytið rétt að gera athugasemd getur það gefið út leiðbeiningar um túlkun laganna og stjórnsýslu sveitar­félagsins á þessu sviði, gefið út álit um lögmæti athafna eða athafna­leysis sveitar­félagsins eða annars er eftirlit beinist að, sbr. 1. og 2. tölulið.

Um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum er fjallað í XI. kafla sveitar­stjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna fer samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra með eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 2. málsl. 2. mgr. 109. gr. er hins vegar m.a. tekið fram að ráðherra hafi ekki eftirlit með stjórnsýslu sem fram fer á vegum sveitarfélaganna og öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins er með beinum hætti falið eftirlit með. Í 110. gr. sömu laga er fjallað nánar um það með hvaða hætti eftirlit ráðherra með einstökum ákvörðunum eða athöfnum sveitar­félaga fer fram, þ. á m. við meðferð frumkvæðismála, sbr. 112. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 112. gr. ákveður ráðuneytið sjálft hvort til­efni sé til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórn­sýslu sveitar­félags sem lýtur eftirliti þess samkvæmt 109. gr. laganna og getur þá gripið til þeirra úrræða sem nánar er mælt fyrir um í 2. mgr. ákvæðisins.

Í máli þessu reynir þannig á samverkan heimilda og hlutverk félags- og vinnu­markaðsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins, svo og samvinnu ráðu­neytanna á þeim grunni, við framkvæmd löggjafar um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og eftir­lit með stjórnsýslu sveitarfélaga á því sviði. Vegna upplýsinga sem umboðsmaður hefur aflað frá framangreindum ráðuneytum eða forverum þeirra í tengslum við önnur sambærileg mál er honum kunnugt um þá almennu afstöðu ráðuneytis sveitarstjórnarmála að því sé aðeins unnt að taka mál til formlegrar umfjöllunar að fyrir liggi afstaða félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem fari með sértækt eftirlit með atvikum málsins.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir þessu er sú er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónar­miði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa hefur, þrátt fyrir að fyrir liggi úrskurður æðra setts stjórnvalds á þá leiða að afgreiðsla máls hafi dregist óhæfilega, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá sveitarfélaginu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála enda hefur reyndin í mörgum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert sé að afgreiða málið. Bregðist stjórnvaldið hins vegar ekki við í tilefni slíkra fyrirspurna eru möguleikar umboðsmanns Alþingis til frekari viðbragða takmarkaðir enda hefur hann ekki réttarskipandi vald eða úrræði til að knýja á um afgreiðslu málsins. Við þessar aðstæður kann hins vegar að reyna á framangreindar eftirlitsheimildir félags- og vinnu­markaðsráðuneytisins annars vegar og innviða­ráðu­neytisins hins vegar gagnvart stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, m.a. í ljósi þess að fyrir liggur úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála sem lýtur að stjórnsýslu sveitarfélagsins sem er endanlegur á stjórnsýslustigi, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðar­nefnd velferðarmála.

Í ljósi þess sem að framan er rakið verður að telja að umbjóðandi yðar geti freistað þess að leita til félags- og vinnumarkaðs­ráðu­neytisins með mál sitt. Komi til þess að að ráðuneytið veiti óbindandi álit á stjórnsýslu sveitarfélagsins í máli umbjóðanda yðar, kann að koma til þess að ráðuneyti sveitarstjórnarmála geti borið að bregðast við og fjalla um tilvikið á grundvelli 112., og eftir atvikum, 116. gr. sveitastjórnarlaga.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtunina að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar umbjóðandi yðar telur sig enn beittan rangsleitni er honum fært á að leita til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.