Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11787/2022)

Ökumaður kvartaði yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að leggja stöðubrotsgjald á bifreið í eigu sendiráðs.  

Upplýsti ökumaðurinn að sektin hefði verið greidd af sendiráðinu. Í ljósi þessa og þar sem ekki lá fyrir umboð frásendiráðinu vegna kvörtunarinnar taldi umboðsmaður ekki unnt að líta svo á að ákvörðun Bílastæðasjóðs hefði beinst sérstaklega að ökumanninum  eða að sýnt hefði verið fram á að hún snerti hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki væru því skilyrði til að fjalla frekar um hana.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 21. júlí sl. yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 25. maí sl. um að leggja stöðubrotsgjald á bifreiðina X sem er í eigu Y sendiráðsins en samkvæmt kvörtuninni voru þér ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn.

Í tilefni af kvörtuninni var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 12. ágúst sl., með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem óskað var eftir því að Reykjavíkurborg myndi afhenda umboðsmanni afrit af öllum gögnum málsins. Í kjölfarið hafði starfsmaður umboðsmanns Alþingis samband við yður símleiðis þar sem þér upplýstuð að stöðubrotsgjaldið hefði verið greitt af Y sendiráðinu.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Samkvæmt gögnum málsins var stöðubrotsgjaldið lagt á bifreið í eigu Y sendiráðsins og var það jafnframt greitt af sendiráðinu. Þá hafið þér upplýst með tölvupósti 28. nóvember sl. að þér munið ekki leggja fram umboð frá sendiráðinu vegna kvörtunarinnar. Í ljósi framangreinds tel ég ekki unnt að líta svo á að ákvörðun Bílastæðasjóðs hafi beinst sérstaklega að yður eða að sýnt hafi verið fram á að hún snerti hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.