Menntamál.

(Mál nr. 11865/2022)

Kvartað var yfir stjórnsýslu Garðabæjar í eineltismáli.  

Að virtu því svigrúmi sem innviðaráðuneytið hefur til að meta hvort erindi sé þess eðlis að það gefi tilefni til frekari viðbragða af þess hálfu og með hliðsjón af kvörtuninni og gögnum málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu þess. Ekki yrði betur séð en ráðuneytið hefði lagt mat á erindin.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 29. september sl. yfir stjórnsýslu Garðabæjar í eineltismáli dóttur yðar.

Gögn málsins bárust frá ráðuneytinu 24. október sl. samkvæmt beiðni þar um.

Í kvörtuninni kemur fram að með erindi 12. júlí sl. beinduð þér kvörtun til innviðaráðuneytisins vegna ýmissa atriða í stjórnsýslu Garðabæjar í tengslum við téð eineltismál. Ég ræð af kvörtun yðar til umboðsmanns að erindið til ráðuneytisins hafi m.a. lotið að skorti á viðbrögðum sveitarfélagsins við ábendingum yðar og kvörtunum í gegnum tíðina sem og ætluðum lögbrotum starfsmanna þess. Í svari ráðuneytisins 22. september sl. voruð þér upplýstir um að það hefði framsent þann hluta kvörtunarinnar sem sneri að skyldum sveitarfélagsins samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 98/2008 til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Í kvörtuninni er þess farið á leit að umboðsmaður taki aðra þætti málsins til skoðunar, en þeir snúa að viðbrögðum framkvæmdastjóra sveitarfélagsins við ábendingum yðar og viðbrögðum sveitarfélagsins við áliti Persónuverndar.

Í ljósi þess hvernig kvörtun yðar er framsett tek ég fram að af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að athugun umboðsmanns beinist að jafnaði aðeins að úrlausn æðra stjórnvalds sem fjallað hefur um viðkomandi mál, ef slíkri úrlausn er á annað borð til að dreifa. Í ljósi framangreinds hefur athugun á kvörtun yðar verið afmörkuð við framangreinda niðurstöðu innviðaráðuneytisins 22. september sl.

Í fyrrgreindu svari ráðuneytisins til yðar er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga, sjái sveitarstjóri um að stjórnsýsla sveitarfélags samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Í ákvæðinu felist einnig skylda sveitarstjóra til að grípa til aðgerða berist honum upplýsingar um að stjórnsýsla sveitarfélags sé ekki í samræmi við lög. Þá er vísað til þess að samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að sveitarstjórinn hafi almennt tekið afstöðu til kvartana yðar vegna stjórnsýslu sveitarfélagsins. Það sé mat ráðuneytisins, eins og mál þetta sé vaxið, að ekki séu vísbendingar um að sveitarstjórinn hafi ekki gætt að fyrrgreindri skyldu samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 138/2011 og því telji það ekki tilefni til að taka þennan þátt málsins til frekari athugunar á grundvelli 112. gr. laga nr. 138/2011. Þá er tekið fram að ráðuneytið hafi þegar, í bréfi til yðar 17. september sl., fjallað um þann þátt kvörtunarinnar er laut að ófullnægjandi viðbrögðum sveitarfélagsins við áliti Persónuverndar. Því sé ekki tilefni til frekari umfjöllunar um það efni. Í því bréfi ráðuneytisins taldi það ekki tilefni til að gera athugasemdir við stjórnsýslu sveitarfélagsins enda lá fyrir að sveitarfélagið hafði upplýst að til stæði að fara yfir verklag í samræmi við téð álit Persónuverndar.

Um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum er fjallað í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. hefur innviðaráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Þá leiðir af 2. mgr. sömu lagagreinar að eftirlit ráðherra tekur ekki til ákvarðana sveitarfélaga sem öðrum stjórnvöldum á vegum ríkisins er með beinum hætti falið eftirlit með. Að því leyti sem ekki er um að ræða ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti innviða­ráðu­neytisins samkvæmt 109. gr. ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess, sbr. 1. mgr. 112. gr. laganna.

Þótt erindi sem ráðu­neytinu berast á grundvelli 112. gr. laga nr. 138/2011 kunni að verða því tilefni til að hefja athugun á máli er því almennt ekki skylt á þessum grundvelli að taka erindi og kvartanir vegna stjórnsýslu sveitarfélaga til efnislegrar úrlausnar. Í því sambandi hefur ráðuneytið allvíðtækt svigrúm til að meta hvort erindi sé þess eðlis að það gefi tilefni til frekari viðbragða af þess hálfu. Þegar framangreint er virt og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og önnur gögn málsins tel ég mig ekki hafi forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að bregðast ekki frekar við erindi yðar en gert var. Í því sambandi tek ég fram að ég fæ ekki betur séð að ráðuneytið hafi lagt mat á þau.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.