Almannatryggingar. Tannlækningar. Rökstuðningur.

(Mál nr. 3219/2001)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem synjun Tryggingastofnunar ríkisins um áframhaldandi kostnaðarþátttöku/endurgreiðslu vegna tannréttinga A var staðfest. Var synjunin byggð á því að virkri tannréttingu hefði verið lokið þegar umsókn A barst tryggingastofnun vegna kostnaðar við eftirlit. Í kvörtuninni kom fram að sótt hefði verið um endurgreiðslu vegna eftirlits tannlæknis í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar og að úrskurðarnefndin hefði ekki tekið tillit til þessa í niðurstöðu sinni.

Umboðsmaður benti á að í umsókn tannlæknis A hefði sérstaklega verið tekið fram að verið væri að sækja um áframhaldandi endurgreiðslu tryggingastofnunar vegna eftirlits í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar sem á þeim tíma var nýafstaðin. Hefði þetta verið ítrekað í bréfi tannlæknisins til úrskurðarnefndarinnar sem ritað var að beiðni nefndarinnar vegna fyrirspurnar hennar um í hverju eftirlitið væri fólgið jafnframt sem það hefði mátt ráða af kæru A til nefndarinnar. Umboðsmaður rakti ákvæði c-liðar 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og 3. og 4. gr. reglna nr. 29/1999, um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma og slysa, sem settar voru á grundvelli lagaákvæðisins. Samkvæmt 3. gr. reglnanna tekur tryggingastofnun þátt í kostnaði við nauðsynlegar tannlækningar, aðrar en tannréttingar, vegna meðal annars alvarlegra einkenna frá kjálkaliðum eða tyggivöðvum, sbr. 4. tölul. ákvæðisins. Með vísan til framangreinds taldi umboðsmaður að umfjöllun úrskurðarnefndarinnar, sem einskorðaðist við að sótt hefði verið um endurgreiðslu vegna tannréttinga samkvæmt 4. gr. reglnanna, hafi takmarkast um of við það atriði.

Umboðsmaður benti á að í úrskurði nefndarinnar hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort eftirlit tannlæknis í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar félli undir c-lið 33. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 3. gr. reglna nr. 29/1999. Var aðeins vísað til þess að þar sem virkri tannréttingarmeðferð hefði verið lokið félli eftirlitið ekki undir nefnt ákvæði laga nr. 117/1993. Lagði hann áherslu á að miðað við atvik málsins og fyrirliggjandi gögn hefði nefndinni hins vegar borið að fjalla um málið á þeim grundvelli. Var það niðurstaða umboðsmanns að verulegur annmarki hefði verið á úrskurði úrskurðarnefndarinnar, sbr. 31. gr., sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar á ný, kæmi fram ósk um það frá henni, og hagaði þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem fram komu í álitinu.

I.

Hinn 9. apríl 2001 leitaði B, fyrir hönd A, til mín og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem synjun Tryggingastofnunar ríkisins um áframhaldandi kostnaðarþátttöku/endurgreiðslu vegna tannréttinga A var staðfest. Í kvörtuninni kemur fram að sótt hafi verið um endurgreiðslu vegna eftirlits tannlæknis í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar sem framkvæmd var á A í desember 1999. Hafi eftirlitið hjá tannlækninum verið nauðsynlegt til þess að aðgerðin næði tilgangi sínum en úrskurðarnefndin hafi ekki tekið tillit til þessa í niðurstöðu sinni.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 28. desember 2001.

II.

Málavextir eru raktir í kæru A til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Þar kemur fram að þegar hún var sjö ára hafi komið í ljós að kjálkaliður hennar var afmyndaður og að framkvæma þyrfti aðgerð. Þar sem hún var ung og hafði ekki náð fullum vexti hófst tannréttingameðferð og undirbúningur fyrir aðgerð hjá tannréttingasérfræðingi. Hefur A gengist undir þrjár aðgerðir á kjálka í Kaupmannahöfn. Fyrsta aðgerðin var framkvæmd árið 1994, önnur í janúar 1999 og sú þriðja í desember 1999. Í kærunni er tekið fram að þriðja aðgerðin hafi verið afleiðing af þeirri fyrstu þar sem kjálkaliðurinn, sem búinn var til í fyrstu aðgerðinni, hafi stífnað. Þá er bent á að ekki liggi fyrir að þessi síðasta aðgerð „haldi“ og því sé mikilvægt að A geri æfingar á kjálkanum svo hann festist ekki aftur. Í kvörtun A kemur fram að hún hafi þurft að æfa munnopnun nokkrum sinnum á dag. Hefur danskur kjálkaskurðlæknir sem framkvæmdi aðgerðirnar í Danmörku lagt áherslu á að A væri undir ströngu eftirliti hér á landi og að æfingarnar væru gerðar samkvæmt leiðbeiningum frá honum. Hefur hann verið í sambandi við tannlækni A hér á landi sem hefur gefið honum skýrslu. Í kvörtuninni kemur ennfremur fram að eftirlitið sé nánar fólgið í að mæla munnopið og kjálkastaðsetninguna. Þetta hafi verið mjög mikilvægt fyrstu mánuðina eftir aðgerðina þar sem að skurðir í munni og við kjálkalið voru að gróa.

Hinn 11. janúar 2000 sótti tannlæknir A um áframhaldandi endurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins. Var umsóknin rituð á eyðublað fyrir endurgreiðslu vegna tannréttinga. Um tildrög umsóknarinnar segir svo á eyðublaðinu:

„[A] er nýkomin heim úr kjálkaliðsaðgerð frá Kaupmannahöfn. Hún er nú með teygjur til lokunar á biti. Verður áfram í eftirliti um sinn.“

Var umsókninni synjað 16. febrúar 2000.

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 11. maí 2000, kærði A umrædda synjun tryggingastofnunar til nefndarinnar. Áður en nefndin kvað upp úrskurð sinn óskaði hún eftir greinargerð tryggingayfirtannlæknis og sjúkratryggingasviðs og gaf A í kjölfarið kost á að koma með sínar athugasemdir við greinargerðina. Þá óskaði nefndin með bréfi, dags. 28. júní 2000, til B eftir vottorði tannlæknis A þar sem fram kæmi í hverju eftirlit tannlæknisins væri fólgið og hver væri tilgangurinn. Í svari tannlæknisins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júlí 2000, segir meðal annars svo:

„[A] þarf að vera í eftirliti vegna nýyfirstaðinna tannréttinga, en einnig vegna beiðni læknis hennar við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Hann óskar eftir að við hjálpum [A] að fylgja eftir fyrirmælum hans um, að hún haldi þeim árangri sem náðist við síðustu aðgerð á kjálkalið. Mjög mikilvægt er að mæla opnunargetuna og gera ráðstafanir ef hún minnkar aftur. Einnig vill [X] fá að fylgjast með árangrinum af aðgerðinni um einhvern tíma. Meðfylgjandi er afrit af síðasta bréfi frá honum.“

Nefndin kvað upp úrskurð sinn 16. ágúst 2000. Greinargerð tryggingayfirtannlæknis var tekin upp orðrétt í úrskurðinum en þar segir eftirfarandi:

„Eins og fram kemur í kærunni var gerð kjálkaliðsaðgerð á [A] árið 1994. Vegna kjálkaliðsvandans var nauðsynlegt að rétta tennur [A] og hefur TR greitt nær allan kostnað af tannréttingum hennar frá 1988 samkvæmt reglum þar um, nú síðast 4. gr. reglna nr. 29/1999. Fyrstu tvö árin greiddi TR 85% af réttingarkostnaði en 100% eftir það. Síðasta greiðsla TR vegna réttinganna er frá 10. janúar 2000 vegna meðferðar (eftirlits) sem framkvæmd var 30. desember 1999. Samtals námu greiðslur TR um [...] kr. á þessu tímabili (á verðlagi hvers árs).

Vegna ofangreindrar umsóknar [A] skoðaði undirritaður hana þann 15. febrúar s.l. Engin tannréttingarmeðferð var þá í gangi. Það kom fram hjá [A] að síðasta skurðaðgerðin sem hún fór í var til þess að laga útlit á afturstæðri höku og krafðist slík aðgerð auðvitað engrar tannréttingameðferðar.

Sex ár eru liðin frá kjálkaliðsaðgerðinni. Enda þótt [A] kunni að fara einstaka sinnum til eftirlits til réttingartannlæknis síns réttlætir það ekki áframhaldandi stuðning TR. Vegna sérstöðu [A] vegna kjálkaliðsvandans, var henni veittur stuðningur mun lengur en almennt gerist í tannréttingum en almenna reglan þar er að stuðningi TR lýkur strax eftir að virkri tannréttingu lýkur, þ.e. þegar föst tæki hafa verið fjarlægð. [A] losnaði við föstu tækin í maí og júní 1999.

Tannréttingum [A] er lokið og var umsókn hennar frá 11. janúar s.l. því synjað.“

Athugasemdir B, fyrir hönd A, dags. 7. júní 2000, við framangreinda greinargerð tryggingayfirtannlæknis eru einnig teknar orðrétt upp í úrskurðinum. Þar segir svo:

„Í greinargerð tryggingayfirtannlæknis kemur fram að síðasta aðgerðin sem [A] fór í til Kaupmannahafnar hafi eingöngu verið til þess að laga útlit á afturstæðri höku. Þetta er ekki rétt.

Í kæru minni kemur fram að [A] hefur farið í þrjár kjálkaskurðaðgerðir til Kaupmannahafnar fyrst 1994 þar sem kjálkaliður var búinn til með því að taka bein (brjósk) úr rifbeini. Í janúar 1999 var kjálkinn lengdur þá kom í ljós að kjálkaliðurinn sem búinn var til í fyrstu aðgerðinni 1994 hafði stífnað (stirnað), þar af leiðandi gat [A] ekki opnað munninn nægjanlega mikið. Þriðja kjálkaskurðaðgerðin var ákveðin á grundvelli þess að hreinsa og liðka tilbúna kjálkaliðinn sem var nauðsynlegt til þess að munnopið yrði nægjanlegt fyrir hana, jafnframt var lagað útlit á afturstæðri höku, en það var aukaatriði og aðgerðin ekki ákveðin á grundvelli þess.

[X] danski kjálkaskurðlæknirinn, sem hefur framkvæmt allar aðgerðirnar lagði áherslu á að [A] gerði kjálkaæfingar undir eftirliti. Hann hefur verið í sambandi við [Y] og fengið skýrslu frá henni. Því það er mjög mikilvægt að kjálkaliðurinn stirðni (festist) ekki aftur.

Það er von okkar að með þessari aðgerð nái liðurinn að verða heilbrigður en það er þó ekki útséð með það á þessari stundu og [A] geti framvegis talað og tuggið óhindrað.“

Í niðurlagi úrskurðarins segir svo:

„Kærandi hefur um árabil verið í tannréttingum. Á árunum 1988 og 1989 var samþykkt 85% þátttaka TR í kostnaði við tannréttingar kæranda. Árið 1990 var samþykkt 100% þátttaka TR í tannréttingakostnaði hennar. Samkvæmt málsgögnum losnaði kærandi við föst tæki í maí og júní 1999. Tryggingastofnun tók þátt í kostnaði við eftirlit hjá tannréttingatannlækni kæranda allt til síðastliðinna áramóta. Þann 11. janúar 2000 var sótt um áframhaldandi kostnaðarþátttöku/endurgreiðslu TR vegna tannréttinga. Umsókn var synjað.

Samkvæmt c lið 33. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er veittur styrkur til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 37. gr. nær til vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs. Núgildandi reglur eru nr. 29/1999. Kærandi hefur fengið tannréttingakostnað sinn greiddan á grundvelli þessara ákvæða og samsvarandi ákvæða í eldri lögum, þ.e. lögum nr. 67/1971.

Í framkvæmd hefur tryggingatannlæknir sett þá verklagsreglu að virk tannrétting standi yfir á meðan föst tæki eru uppi í gómi/gómum. Nefndin telur þessa verklagsreglu og takmörkun sem í henni felst eðlilega. Meginreglan er sú að greiðslur Tryggingastofnunar vegna kostnaðar við tannréttingar fara fram á meðan á virkri meðferð stendur og þeim lýkur þegar föst tæki hafa verið fjarlægð úr munni kæranda. Föst tæki voru fjarlægð úr kæranda í maí og júní 1999. Virkri tannréttingu er því lokið. Í janúar er sótt um áframhaldandi kostnaðarþátttöku vegna eftirlits hjá tannréttingatannlækni. Enginn rökstuðningur hefur verið settur fram af hálfu kæranda fyrir áframhaldandi kostnaðarþátttöku TR vegna tannréttinga. Virkri tannréttingameðferð er lokið og synjun því staðfest.

Kjálkaliðsaðgerðir þær sem kærandi gekkst undir í Kaupmannahöfn voru samþykktar og greiddar samkvæmt 35. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993. Samkvæmt orðanna hljóðan eru greiðslur skv. því ákvæði bundnar við meðferð erlendis. Um greiðslur fyrir eftirlit hjá tannlækni hér á landi vegna þeirra aðgerða er ekki að ræða samkvæmt því ákvæði.

ÚRSKURÐARORÐ:

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn [A] [...], dags. 11. janúar 2000, er staðfest.“

III.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég úrskurðarnefnd almannatrygginga bréf, dags. 4. maí 2001, og óskaði eftir því með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að nefndin léti mér í té gögn málsins. Mér barst bréf úrskurðarnefndarinnar 14. maí s.á. og fylgdu umbeðin gögn með bréfi nefndarinnar.

Ég ritaði úrskurðarnefndinni bréf, dags. 29. maí 2001, þar sem þess var óskað með vísan til 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að úrskurðarnefndin lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar. Sérstaklega var þess óskað að úrskurðarnefndin gerði nánari grein fyrir viðhorfi sínu til þeirrar þjónustu sem var grunvöllur kröfu A um endurgreiðslu og til þarfa hennar með tilliti til ákvæða c-liðar 33. gr. og 37. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og 4. og 5. gr. reglna nr. 29/1999, um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma og slysa. Þá var þess óskað að úrskurðarnefndin léti mér, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, í té reglur tryggingaráðs frá 28. nóvember 1997, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannréttingar barna og ungmenna. Framangreind tilmæli mín voru ítrekuð í bréfi til nefndarinnar, dags. 3. júlí 2001.

Svarbréf úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júlí 2001, barst mér 9. júlí s.á. Þar segir meðal annars svo:

„Úrskurðarnefndinni er ekki nægjanlega ljóst hvað umboðsmaður á við [...], en til frekari skýringar skal eftirfarandi áréttað:

Kærumálið [...] varðar kröfu kæranda til þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við eftirlit tannlæknis á Íslandi í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar í Danmörku, sbr. umsókn tannlæknis frá 11. janúar 2000. Nefndin telur eftirlitið ekki vera hluta tannréttingarmeðferðar þeirrar sem [A] hafði gengist undir og TR hafði tekið þátt í kostnaði við. Þá telur nefndin eftirlitið ekki vera nauðsynlegar tannlækningar sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 29/1999.

Að öðru leyti vísast til fyrirliggjandi úrskurðar og forsendna hans.“

Ég gaf B kost á að gera athugasemdir við framangreindar skýringar úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í símtali við starfsmann minn 4. desember sl. taldi hann rétt að ítreka að umrætt eftirlit væri samkvæmt fyrirmælum danska kjálkaskurðlæknisins sem framkvæmdi kjálkaaðgerðirnar á A.

IV.

1.

Í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga er talið að A eigi ekki rétt á frekari endurgreiðslu vegna tannréttinga. Er þar vísað til þess að meginreglan sé sú að greiðslur tryggingastofnunar vegna kostnaðar við tannréttingar fari fram á meðan á virkri meðferð stendur og að þeim ljúki þegar föst tæki eru fjarlægð úr munni. Tekur nefndin fram að sú verklagsregla tryggingatannlæknis að virk tannrétting standi yfir á meðan föst tæki eru uppi í gómi/gómum sé eðlileg og sama eigi við um þá takmörkun sem í henni felist. Þar sem A losnaði við föst tæki í maí og júní 1999 hafi virkri tannréttingu verið lokið hjá henni þegar sótt var um áframhaldandi kostnaðarþátttöku/endurgreiðslu tryggingastofnunar vegna eftirlits hjá tannréttingatannlækni. Þá bendir úrskurðarnefndin á að „enginn rökstuðningur [hafi] verið settur fram af hálfu [A] fyrir áframhaldandi kostnaðarþátttöku TR vegna tannréttinga“.

Í tilefni af framangreindu vek ég athygli á því að í umsókn tannlæknis A er sérstaklega tekið fram að verið sé að sækja um áframhaldandi endurgreiðslu tryggingastofnunar vegna eftirlits í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar sem á þeim tíma var nýafstaðin. Þetta er ítrekað í bréfi tannlæknisins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júlí 2000, sem ritað var að beiðni nefndarinnar vegna fyrirspurnar hennar um í hverju eftirlit tannlæknisins væri fólgið. Af kæru A til úrskurðarnefndarinnar má enn fremur ráða að sótt hafi verið um endurgreiðslu vegna eftirlits í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar sem framkvæmd var í Kaupmannahöfn í desember 1999. Er lögð á það áhersla að tannréttingameðferð sú sem hún hafi gengist undir frá árinu 1988 hafi verið liður í kjálkaliðsvanda hennar sem hún hafi átt við að stríða síðan hún var barn að aldri. Er bent á að hún hafi farið í samtals þrjár kjálkaliðsaðgerðir sem allar voru framkvæmdar í Danmörku af dönskum kjálkaskurðlækni og vakin athygli á því að ekki sé „útséð ennþá hvort þessi þriðja aðgerð haldi og því mjög mikilvægt að [hún] geri æfingar á kjálkanum svo kjálkinn festist ekki aftur“. Er í því sambandi vísað til þess að danski læknirinn hafi lagt áherslu á að æfingarnar séu gerðar samkvæmt leiðbeiningum frá honum en hann hafi verið í sambandi við tannlækni A hér á landi. Í athugasemdum A við greinargerð tryggingayfirtannlæknis er ítrekað að um sé að ræða eftirlit með kjálkaliðsskurðaðgerð og að vonir séu bundnar við það að kjálkaliðurinn „nái [...] að verða heilbrigður“ þannig að hún „geti framvegis talað og tuggið óhindrað“.

Samkvæmt c-lið 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, er það hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 37. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Setur ráðherra reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum tryggingaráðs, sbr. nú reglur nr. 29/1999, um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma og slysa. Í 3. og 4. gr. reglnanna er fjallað um kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins þegar um er að ræða annars vegar nauðsynlegar tannlækningar og hins vegar nauðsynlegar tannréttingar. Samkvæmt 3. gr. reglnanna tekur tryggingastofnun þátt í kostnaði við nauðsynlegar tannlækningar, aðrar en tannréttingar, vegna meðal annars alvarlegra einkenna frá kjálkaliðum eða tyggivöðvum, sbr. 4. tölul. ákvæðisins, enda verði það ekki rakið til stórkostlegs gáleysis umsækjanda. Samkvæmt 4. gr. reglnanna skal tryggingastofnun taka þátt í kostnaði við nauðsynlegar tannréttingar vegna meðal annars alvarlegs misræmis í vexti kúpu og kjálka, sbr. 3. tölul. ákvæðisins.

Með vísan til framangreinds ákvæðis laganna og þeirra gagna sem rakin voru hér að framan tel ég að umfjöllun úrskurðarnefndarinnar, sem einskorðaðist við að sótt hefði verið um endurgreiðslu vegna tannréttinga, hafi takmarkast um of við það atriði þó að af umsókninni og kærunni hafi mátt ráða að um var að ræða eftirlit í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar. Tel ég því að úrskurðarnefndinni hafi borið að fjalla um kæru A á víðari grundvelli. Í þessu sambandi tel ég rétt að vekja athygli á því að í skýringum nefndarinnar til mín frá 5. júlí 2001 er sérstaklega tekið fram að umrætt mál hafi varðað kostnaðarþátttöku tryggingastofnunar „við eftirlit tannlæknis á Íslandi í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar í Danmörku, sbr. umsókn tannlæknis frá 11. janúar 2000“. Er því ósamræmi í umfjöllun nefndarinnar í úrskurði sínum að þessu leyti og í skýringum hennar til mín.

2.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er ekki sérstaklega vikið að því hvort nauðsynlegt eftirlit í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar sé kostnaður sem tryggingastofnun tekur almennt þátt í eða hvort slíkt falli almennt undir ákvæði c-liðar 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, eða 37. gr. sömu laga. Í niðurlagi úrskurðarins er einungis tekið fram að tryggingastofnun hafi samþykkt og greitt kjálkaliðsaðgerðirnar samkvæmt 35. gr. laga nr. 117/1993. Er bent á að samkvæmt orðanna hljóðan séu greiðslur samkvæmt því ákvæði bundnar við meðferð erlendis og því ekki um að ræða greiðslur fyrir eftirlit hjá tannlækni hér á landi vegna þeirra aðgerða samkvæmt því ákvæði.

Ég bendi á að í skýringum nefndarinnar til mín í bréfi, dags. 5. júlí 2001, segir að það sé álit nefndarinnar að eftirlit tannlæknis á Íslandi í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar í Danmörku sé ekki hluti tannréttingameðferðar sem A hafði gengist undir og tryggingastofnun tekið þátt í kostnaði við. Þá er það álit nefndarinnar að eftirlitið sé ekki nauðsynlegar tannlækningar í skilningi 3. gr. reglna nr. 29/1999.

Ég minni hér á að kostnaðarþátttaka sú sem mælt er fyrir um í c-lið 33. gr. laga nr. 117/1993 tekur til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 37. gr. sömu laga nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Samkvæmt þessu ákvæði er ekki loku fyrir það skotið að kjálkaliðsaðgerðir og nauðsynlegt eftirlit í kjölfar slíkra aðgerða falli almennt undir ákvæði c-liðar 33. gr. laga nr. 117/1993 og þá reglna nr. 29/1999, um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma og slysa. Í þessu sambandi tel ég rétt að vekja athygli á því að samkvæmt 3. gr. reglna nr. 29/1999 tekur Tryggingastofnun ríkisins þátt í kostnaði við nauðsynlegar tannlækningar, aðrar en tannréttingar, vegna meðal annars tilvika sem varða alvarleg einkenni frá kjálkaliðum eða tyggivöðvum, sbr. 4. tölul. ákvæðisins, enda verði það ekki rakið til stórkostlegs gáleysis umsækjanda.

Eins og framan greinir var ekki tekin afstaða í úrskurði úrskurðarnefndarinnar til þess hvort umrætt eftirlit tannlæknis í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar A félli undir c-lið 33. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 3. gr. reglna nr. 29/1999. Í úrskurðinum var aðeins fjallað um að þar sem virkri tannréttingarmeðferð var lokið félli eftirlitið ekki undir nefnt ákvæði laga nr. 117/1993 sem liður í sjúkratryggðri tannréttingarmeðferð. Ég tek fram að það nægir ekki að nefndin skyldi fullyrða í skýringarbréfi til mín að umrætt eftirlit félli ekki undir 3. gr. reglugerðar nr. 29/1999. Ég legg áherslu á að miðað við atvik málsins, umsókn tannlæknisins og bréf hans frá 14. júlí 2000, bar nefndinni hins vegar að fjalla um málið á þeim grundvelli. Með vísan til þessa er það skoðun mín að verulegur annmarki hafi verið á úrskurði úrskurðarnefndarinnar, sbr. 31. gr., sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V.

Niðurstaða.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi borið að taka kæru A sem kæru á synjun um endurgreiðslu vegna nauðsynlegs eftirlits í kjölfar kjálkaliðsaðgerðar en ekki alfarið tannréttingameðferðar og leysa úr henni á þeim grundvelli. Þar sem ekki var leyst úr því álitamáli hvort umrætt eftirlit tannlæknis í kjölfar aðgerðarinnar félli undir ákvæði laga nr. 117/1993 og reglna settum á grundvelli þeirra er það niðurstaða mín að úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi verið haldinn verulegum annmarka, sbr. 31. gr., sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna þessa annmarka á málsmeðferð nefndarinnar er ekki tilefni til þess að ég taki á þessu stigi að öðru leyti afstöðu til máls A. Eru það því tilmæli mín til úrskurðarnefndarinnar að hún taki mál A til meðferðar á ný, komi fram ósk um það frá henni, og hagi þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Í tilefni af áliti mínu barst mér bréf frá úrskurðarnefnd almannatrygginga, dags. 22. maí 2002. Þar segir svo:

„Svo sem fram kemur í meðfylgjandi gögnum hefur Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli nýrrar umsóknar samþykkt kostnaðarþátttöku í meðferð vegna kjálkaliðsaðgerðar frá 1999.

Jafnframt hefur [B] faðir [A] símleiðis þann 16. maí s.l. dregið til baka beiðni um endurupptöku kærumáls [...] hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga.“