Félagsþjónusta- og félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 11872/2022)

Kvartað var yfir viðbrögðum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna beiðna um aðstoð við þrif á sameign og tilfallandi verkefni í fjölbýlishúsi sem viðkomandi býr og taldi ófullnægjandi.

Fram kom í svari Reykjavíkurborgar að erindi viðkomandi til sveitarfélagsins skiptu hundruðum á árinu. Öllum sem hafi varðað stuðning, þjónustu og aðstoð með þrif á sameign hefði verið svarað og jafnframt að þrif í sameign hefðu verið í föstum farvegi um skeið auk annars. Af afritum fjölda tölvupósta af samskiptum viðkomandi við sveitarfélagið sem hann sendi umboðsmanni varð ekki betur séð en almennt hefði verið brugðist við þeim eftir því sem tilefni hefði verið til. Ekki væru forsendur til að halda athugun umboðsmanns áfram.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 4. október sl. sem ráðið verður að lúti helst að viðbrögðum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna beiðna yðar um aðstoð við þrif á sameign og tilfallandi verkefni í fjölbýlishúsi því sem þér búið í og teljið ófullnægjandi.

Í tilefni af kvörtun yðar var velferðarsviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 28. október sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi yðar hefði borist og eftir atvikum hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Í svari Reykjavíkurborgar 9. nóvember sl. kemur fram að erindi yðar til Reykjavíkurborgar skipti hundruðum það sem af er ári. Öllum erindum er varði stuðning, þjónustu og aðstoð með þrif á sameign hafi verið svarað. Þá er tekið fram að þrif á sameign fjölbýlishússins hafi verið í föstum farvegi um nokkurt skeið og viðhaldi og auknum þrifum hafi einnig verið sinnt undanfarið í samráði við yður. Þér hafið á liðnum vikum sent embætti umboðsmanns afrit fjölda tölvupóstsamskipta yðar við starfsmenn sveitarfélagsins þar sem þér komið á framfæri ýmsum athugasemdum. Af þeim verður ekki betur séð en að almennt sé brugðist við þeim eftir því sem þeir gefa tilefni til. Í ljósi framangreinds og þess sem rakið hefur verið um viðbrögð sveitarfélagsins tel ég ekki forsendur til að halda áfram athugun minni á kvörtun yðar.

Í kvörtun yðar er einnig vikið að ætlaðri rangri meðferð persónuupplýsinga án þess að fylgt hafi frekari upplýsingar um það atriði. Af því tilefni tel ég rétt að vekja athygli yðar á þeim möguleika að beina kvörtun til Persónuverndar með vísan til þess hlutverks sem stofnunin fer með, sbr.  2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með þeirri ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá Persónuvernd.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.