Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 11908/2022)

Kvartað var yfir viðbrögðum úrskurðarnefndar velferðarmála við beiðnum um að haga málsmeðferð með tilteknum hætti í kærumáli.

Ekki varð betur séð en kvörtunin lyti að ákvörðun úrskurðarnefndarinnar um tilhögun málsmeðferðar í máli sem ekki hefði verið til lykta leitt. Því voru ekki skilyrði til frekari athugunar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 2. nóvember sl. sem lýtur að viðbrögðum úrskurðarnefndar velferðarmála 19. október sl. við beiðnum yðar um að haga málsmeðferð með tilteknum hætti í máli nr. 455/2017.

Í kvörtuninni kom fram að úrskurðarnefndin hefði tekið ákvörðun um að fjalla ekki um tiltekinn hluta kærumáls yðar. Af því tilefni hafði starfsmaður skrifstofu umboðsmanns samband við yður símleiðis 8. nóvember sl. þar sem þess var óskað að þér afhentuð umboðsmanni afrit af gögnum sem varpað gætu ljósi á þessa afstöðu nefndarinnar. Með tölvubréfum sama dag bárust umbeðin gögn frá yður.

Af þeim verður ráðið að þér fóruð þess á leit við nefndina að hún tæki afstöðu  til tiltekinna atriða sem fram komu í umsögn Tryggingastofnunar til nefndarinnar í tilefni af kæru yðar. Í þeirri umsögn hafi Tryggingastofnun lýst því yfir að stofnunin muni komast að annarri niðurstöðu, umbjóðanda yðar í óhag, fari svo að úrskurðarnefndin úrskurði henni í hag. Í tölvubréfi starfsmanns nefndarinnar 19. október sl. til yðar kom fram að úrskurðarnefndin muni ekki úrskurða fyrir fram um viðkomandi álitaefni. Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti að framangreindri afstöðu nefndarinnar.

Af þessu tilefni tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki verður betur séð en að kvörtun yðar lúti að ákvörðun úrskurðarnefndarinnar um tilhögun málsmeðferðar í máli sem ekki hefur enn verið ráðið til lykta. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.