Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11922/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu kvörtunar hjá Persónuvernd og ætlaðri miðlun embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum viðkomandi.  

Persónuvernd hafði greint viðkomandi frá því fyrir tæplega hálfu ári að sá hluti kvörtunarinnar sem lyti að Landsbankanum félli utan valdsviðs stofnunarinnar og að stofnunin teldi það sem sneri að lögreglunni afmarkast við aðgangsrétt að gögnum. Þar sem lesa mætti út úr kvörtuninni til umboðsmanns og nýjustu bréfasendingum til Persónuverndar að viðkomandi hefði ekki verið kunnugt um þetta væri honum veittur kostur á að koma athugasemdum á framfæri á ný við Persónuvernd og lýsa afstöðu sinni innan tiltekins tíma. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. desember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 15. nóvember sl. sem beinist annars vegar að töfum á afgreiðslu kvörtunar yðar frá 22. nóvember 2020 hjá Persónuvernd og hins vegar að ætlaðri miðlun embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Persónuvernd ritað bréf 16. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Nú hafa borist svör frá Persónuvernd dags. 22. nóvember sl. þar sem fram kemur að með bréfi 31. maí sl. hafi yður verið tilkynnt að sá hluti kvörtunar yðar sem lyti að Landsbankanum hf. félli utan valdsviðs stofnunarinnar og að mat Persónuverndar væri að sá hluti kvörtunarinnar er sneri að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu afmarkaðist við aðgangsrétt að gögnum. Þar sem mat Persónuverndar hafi verið að ekkert í gögnum málsins gæfi annað til kynna en að lögreglan hefði uppfyllt skyldu sína er varðaði afhendingu gagna hafi verið óskað eftir viðbrögðum yðar eigi síðar en 21. júní sl. ef þér óskuðuð þess enn að stofnunin úrskurðaði um kvörtunina.

Í bréfi Persónuverndar til yðar 22. nóvember sl., sem fylgdi með skýringum stofnunarinnar til umboðsmanns, greinir að þar sem af kvörtun yðar til umboðsmanns og nýjustu bréfasendingum yðar til Persónuverndar megi ráða að yður hafi ekki verið kunnugt um framangreint bréf Persónuverndar 31. maí sl., sé yður á ný veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum og lýsa afstöðu til þess hvort þörf sé á að stofnunin úrskurði í málinu, eigi síðar en 14. desember nk.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtun yðar að því leyti sem hún lýtur að töfum á afgreiðslu á máli yðar hjá Persónuvernd. Ég tek hins vegar fram að ef þér teljið frekari tafir verða á málinu getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Í tilefni af því að seinni hluti kvörtunar yðar snýr að ætluðum persónuverndarbrotum lögreglu með skráningu greiðslukröfu tek ég fram að  að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á því byggt að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds eftir að málinu hefur verið skotið til þess í samræmi við almennar reglur, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna.

Framangreint ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar. Að því er þennan hluta máls yðar varðar er sá eftirlitsaðili Persónuvernd.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki verður annað ráðið af framangreindri kvörtun yðar til Persónuverndar en að í henni hafi verið kvartað undan sömu háttsemi lögreglu. Þá verður ekki annað séð en að Persónuvernd hafi með bréfi sínu 22. nóvember sl. veitt yður færi á að koma á framfæri athugasemdum við afmörkun stofnunarinnar á kvörtun yðar undan háttsemi lögreglu og hvort þér óskið eftir úrskurði um hana. Verður því ekki talið að þessi þáttur kvörtunar yðar hafi verið leiddur til lykta og tel ég því ekki tilefni til þess að taka hann til frekari athugunar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að ef þér teljið yður beittan rangindum, að fenginni niðurstöðu stofnunarinnar, getið þér leitað til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.