Aðgangur að gögnum.

(Mál nr. 11927/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Landspítala á 12 daga gamalli beiðni um gögn.

Fyrir lá að landspítali hafði fimm dögum síðar afhent hluta gagnanna og upplýst að óskað hefði verið álits embættis landlæknis á afhendingu þeirra sem eftir stæðu. Að því fengnu yrði aftur haft samband við viðkomandi. Lét umboðsmaður því athugun sinni lokið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 20. nóvember sl., yfir töfum á afgreiðslu Landspítala á beiðni yðar um gögn er varða vitjun yðar á stofnuninni 8. þess mánaðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. eftir atvikum meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Af hálfu umboðsmanns hefur almennt verið litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun vegna þess að dráttur hafi orðið á meðferð erindis hans leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun.

Í tölvubréfi Landspítala til yðar 25. nóvember sl. greinir að yður hafi verið afhentur hluti umbeðinna gagna. Starfsmenn Landspítala hafi óskað álits embættis landlæknis hvað varðar afhendingu annarra gagna og haft verði samband við yður að því fengnu.

Í ljósi þess að þér hafið nýlega beint erindi til Landspítala og að það hefur verið afgreitt að hluta en virðist að öðru leyti vera til meðferðar á þeim vettvangi á grundvelli laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, tel ég að enn hafi ekki orðið slíkur dráttur á afgreiðslu á beiðni yðar að tilefni sé til að ég taki erindi yðar til frekari athugunar. Ég lýk því hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í samræmi við framangreint getið þér hins vegar leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið óhóflegan drátt verða á svörum Landspítala og þá að undangengnum skriflegum ítrekunum af yðar hálfu á erindinu.