Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11936/2022)

Kvartað var yfir dómi og vikið að aðstæðum í fangelsi og heilsufari viðkomandi þar.  

Líkt og umboðsmaður hafði áður greint viðkomandi frá þá fellur það utan starfssviðs hans að fjalla um niðurstöðu dómstóla í einstökum málum. Þá varð ekki séð leitað hefði verið til forstöðumanns fangelsisins, Fangelsismálastofnunar eða dómsmálaráðherra vegna annar atriða í kvörtuninni og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til erindis yðar 20. nóvember sl. þar sem kemur fram að þér afplánið nú refsivist samkvæmt dómi og séuð ósáttir við dóminn. Enn fremur er þar vikið að aðstæðum í fangelsinu og heilsufari yðar. 

Áréttað skal, svo sem fram kemur bréfi umboðsmanns til yðar 29. september sl. vegna kvörtunar yðar fyrr í þeim mánuði, að það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um niðurstöðu dómstóla í einstökum málum sem fyrir þá hafa verið lögð. Einnig var tekið fram að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Kvörtun yðar fylgdu ekki frekari gögn og að öðru leyti verður ekki ráðið af henni hvort yður hafi verið leiðbeint um möguleika á að koma athugasemdum yðar, s.s. varðandi aðbúnað, aðstæður almennt eða aðgang að heilbrigðisþjónustu í fangelsinu, á framfæri við forstöðumann fangelsisins, Fangelsismálastofnun eða dómsmálaráðherra, eða eftir atvikum hvort þér hafið gert það og þá fengið viðbrögð við þeim. Í því sambandi bendi ég yður jafnframt á að ef fyrir liggja einhverjar ákvarðanir sem beinast að yður samkvæmt lögum nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eru þær kæranlegar til dómsmálaráðuneytis nema annað sé tekið fram.

Þar sem þér getið leitað til framangreinda stjórnvalda með athugasemdir yðar tel ég ekki tilefni til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Þér getið aftur á móti að sjálfsögðu leitað til mín á ný ef þér farið þá leiða að leggja málefni yðar í farveg í stjórnsýslunni, en þá eftir að þau hafa verið leidd til endanlegra lykta.

Ég tek jafnframt fram að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­sviptra, þ. á m. fanga, á almennum grunni. Með vísan til þess hlutverks stendur nú yfir heimsókn umboðsmanns á Litla-Hrauni. Heimsóknarteymi umboðsmanns hefur verið upplýst um að þér hafið haft athugasemdir fram að færa og hefur því væntanlega gefið yður kost á að ræða þær nánar í viðtali. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki sé að svo stöddu tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.