Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu kvörtunar hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
Ráðuneytið lauk afgreiðslu kvörtunarinnar með því að benda viðkomandi á að leita til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála þar sem hún hefði lýst því við meðferð kvörtunarinnar hjá ráðuneytinu að sú sjálfseignarstofnun sem kvartað hefði verið undan heyrði undir eftirlit stofnunarinnar. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. desember 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar, fyrir hönd A, 11. október sl. sem beinist að félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og lýtur að töfum á afgreiðslu kvörtunar yðar frá 2. júní sl. sem lýtur að sjálfseignarstofnuninni X og þeirri ákvörðun stofnunarinnar að meina A aðgang að þjónustu hennar.
Í tilefni af kvörtun yðar var félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu ritað bréf 14. október sl. þar sem óskað var upplýsinga um í hvaða farveg kvörtunin hefði verið lögð, auk upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu hennar. Var bréfið ítrekað 28. nóvember sl.
Svör ráðuneytisins bárust 30. nóvember og 7. desember sl. en í síðara bréfinu greinir að ráðuneytið hafi með tölvubréfi 17. nóvember sl. óskað eftir áliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á því hvort þjónusta X falli undir eftirlit stofnunarinnar og sé rekstrarleyfisskyld skv. 5. gr. laga nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Álit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála hafi borist ráðuneytinu 2. desember sl. þar sem m.a. komi fram sú afstaða að X lúti eftirliti stofnunarinnar. Með vísan til þessa hafi ráðuneytið upplýst yður með bréfi um að rétt sé að beina erindi yðar til eftirlitsstofnunarinnar.
Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á kvörtun yðar og nú liggur fyrir að ráðuneytið hafi lokið afgreiðslu hennar með því að benda yður á að leita til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.