Útlendingar.

(Mál nr. 11915/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja um skráningu á lista yfir talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd og þeirri ákvörðun að veita ekki upplýsingar um afdrif tiltekins máls hjá stofnuninni.

Útlendingastofnun greindi frá því að mannleg mistök hefðu verið gerð og afstaða stofnunarinnar væri ekki sú að íslenskukunnáttu eða annarrar tungumálakunnáttu væri krafist til að koma fram fyrir hönd aðila við meðferð mála hjá stofnuninni. Lauk því meðferð umboðsmanns á málinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. desember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 8. nóvember sl. þar sem kvartað var annars vegar yfir ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja yður um skráningu á lista yfir talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd og hins vegar þeirri ákvörðun stofnunarinnar að veita yður ekki upplýsingar um afdrif tiltekins máls hjá stofnuninni. 

Vegna kvörtunar yðar ritaði ég yður bréf 15. nóvember sl. þar sem ég gerði yður grein fyrir því, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ég gæti ekki fjallað frekar um þann hluta kvörtunar yðar er snýr að skráningu á lista yfir talsmenn fyrr en að fenginni afstöðu kærunefndar útlendingamála til álitaefnisins. Í tilefni af seinni hluta kvörtunar yðar óskaði ég, með bréfi 15. nóvember sl., eftir afstöðu Útlendingastofnunar til þess hvort yður sé óheimilt að koma fram fyrir hönd aðila við meðferð mála, eftir atvikum samkvæmt sérstöku umboði og án tillits til skráningar á lista yfir talsmenn.

Nú hafa svör stofnunarinnar borist með bréfi 5. desember sl. og tölvubréfi 6. desember sl. þar sem greinir að mannleg mistök hafi verið gerð við svar til yðar 1. nóvember sl. og að afstaða Útlendingastofnunar sé ekki sú að íslenskukunnáttu eða annarrar tungumálakunnáttu sé krafist til að koma fram fyrir hönd aðila við meðferð mála hjá stofnuninni. Þá sé yður heimilt að koma fram sem umboðsmaður hjá stofnuninni og komi heimild til þess að njóta aðstoðar talsmanns í máli ekki í veg fyrir það.

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á máli yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Loks minni ég á það sem fram kom í bréfi mínu til yðar 15. nóvember sl., að þér getið leitað til mín á nýjan leik að fenginni afstöðu kærunefndar útlendingamála, ef þér teljið yður þá enn beittan rangindum, líkt og nánar er rakið í bréfinu.