Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11926/2022)

Kvartað var yfir því að lögreglustjórinn á Vesturlandi hefði ekki svarað erindum þar sem óskað var eftir tíma til að leggja fram formlega kæru vegna tiltekinna mála.

Í svari lögreglustjórans til umboðsmanns kom fram að viðkomandi hefði verið boðaður til viðtals, gefið vitnaframburð en ekkert orðið af því að hann legði fram kæru og erindið því talið afgreitt af hálfu lögreglunnar. Ekki var því tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. desember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 17. nóvember sl. sem lýtur að því að lögreglustjórinn á Vesturlandi hafi enn ekki svarað erindum yðar um að þér fengjuð tíma til að leggja fram formlega kæru vegna tiltekinna mála.

Í tilefni af kvörtuninni var lögreglustjóranum á Vesturlandi ritað bréf 21. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði afgreiðslu erindisins. Nú hefur borist svarbréf frá lögreglustjóranum 5. desember sl. þar sem fram kemur að þér voruð boðaðir til viðtals hjá lögreglunni 30. nóvember sl. þar sem þér gáfuð vitnaframburð í máli 313-2022-9597. Ekkert hafi orðið af því að þér legðuð fram kæru og erindið því talið afgreitt af hálfu lögreglunnar.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu framangreinds erindis og nú liggur fyrir að lögreglustjóri hefur brugðist við því tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.