Innflutningur.

(Mál nr. 11940/2022)

Kvartað var yfir ákvæðum reglugerðar um vöruval og innkaup tollfrjálsra verslana á áfengi. 

Þar sem erindið laut með almennum hætti að tilteknum ákvæðum reglugerðar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. desember 2022.

  

  

Vísað er til erindis yðar þar sem þér kvörtuðuð fyrir hönd A ehf. yfir nánar tilgreindum ákvæðum reglugerðar nr. 1101/2022, um vöruval og innkaup tollfrjálsra verslana á áfengi.

Í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að það sé hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 4. gr. laganna getur hver sá sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum borið fram kvörtun við umboðsmann. Í athugasemdum með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að stjórnvöld geti ekki kvartað við umboðsmann yfir ákvörðunum og athöfnun annarra stjórnvalda eða óskað lögfræðilegs álits embættisins á máli. Þá segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330.) Í þessu felst m.a. að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Þótt í ll. gr. laga nr. 85/1997 sé umboðsmanni Alþingis veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum gera lögin ekki ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli. Að sjálfsögðu er þó öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Farið er yfir almennar ábendingar sem umboðsmanni berast með tilliti til þess hvort tilefni sé til að umboðsmaður taki atriði sem koma fram í þeim til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laganna. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Erindi yðar lýtur ekki að athöfnum eða ákvörðunum stjórnvalds sem beinist að umbjóðanda yðar sérstaklega heldur lýtur það með almennum hætti að tilteknum ákvæðum fyrrnefndrar reglugerðar, sem sett hefur verið samkvæmt heimild í 3. mgr. 104. gr. tollalaga nr. 88/2005. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar. Ég tek fram í þessu sambandi að staða einstaklinga eða lögaðila sem eru aðilar að stjórnsýslumáli þar sem reynir á lagastoð almennra stjórnvaldsfyrirmæla er að þessu leyti almennt önnur en þeirra sem bera fram almenn erindi þess efnis undir stjórnvöld. Umbjóðandi yðar getur því að sjálfsögðu leitað til umboðsmanns með kvörtun ef fyrir liggur ákvörðun tekin á grundvelli reglugerðarinnar, þ.e. um val á vöru í tollfrjálsri verslun, að fengnum úrskurði ráðherra, sbr. lokamálslið 3. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2005.

Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.