Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11942/2022)

Kvartað var yfir umönnun og aðstæðum heimilismanns á hjúkrunarheimili. 

Þar sem hjúkrunarheimilið er sjálfseignarstofnun og umönnun heimilisfólks felur almennt ekki í sér ákvörðunartöku um rétt eða skyldu þess í skilningi stjórnsýslulaga voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið. Hann benti viðkomandi á að hjúkrunarheimili sem þessi sættu engu að síður opinberu eftirliti og hugsanlega væri hægt að bera erindið undir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála eða landlækni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. desember 2022.

   

  

Vísað er til erindis yðar 3. desember sl. þar sem þér kvörtuðuð yfir umönnun og aðstæðum heimilismanns á hjúkrunarheimilinu X. 

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. X er sjálfseignarstofnun og er því ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins heldur telst það til einkaaðila. Þá felur umönnun heimilismanna á hjúkrunarheimilum almennt ekki sér í ákvörðunartöku um rétt eða skyldu þeirra í skilningi stjórnsýslulaga.

Þótt ekki verði séð að þau atriði sem tilgreind eru í kvörtun yðar falli undir starfssvið umboðsmanns lýtur starfsemi hjúkrunarheimila á borð við Xengu að síður opinberu eftirliti. Annars vegar heyra þau undir almennt eftirlit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sbr. 2. mgr. 1. gr. samnefndra laga nr. 88/2021, og í því felst m.a. að stofnunin tekur við kvörtunum frá notendum þjónustu, sbr. d-lið 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 17. gr. laganna. Hins vegar heyrir sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er á heimilunum undir eftirlit landlæknis. Í því felst m.a., sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, að unnt er að kvarta til landlæknis vegna meintar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.   

Að lokum skal bent á að ef leitað er til framangreindra stjórnvalda með kvörtun og viðkomandi telur sig beittan rangsleitni að fenginni úrlausn þeirra er mögulegt að bera fram kvörtun þar að lútandi við umboðsmann Alþingis, sem þarf þá að berast innan árs frá því að niðurstaða liggur fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 85/1997. 

Með vísan til þess sem að framan greinir brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar og læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.