Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11943/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá Ríkisútvarpinu ohf. 

Þar sem Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag tekur starfssvið umboðsmanns ekki til þess hvað þetta varðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. desember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 4. desember sl. yfir því hvernig staðið hafi verið að ráðningu í starf prófarkalesara hjá Ríkisútvarpinu ohf., en þér voruð á meðal umsækjenda um starfið.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeir hafa að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er Ríkisútvarpið sjálfstætt opinbert hlutafélag. Að öðru leyti en fram kemur í lögunum gilda um Ríkisútvarpið lög nr. 2/1995, um hlutafélög og lög nr. 38/2011, um fjölmiðla, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 23/2013.

Af framangreindu er ljóst að Ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag og starfar því á sviði einkaréttar þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkisins. Þau atriði sem kvörtun yðar beinist að fela ekki í sér beitingu opinbers valds sem Ríkisútvarpinu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunartöku á þeim grundvelli. Fellur það því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar.

Ég vek þó athygli yðar á því, í ljósi þess sem fram kemur í kvörtun yðar, að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna nánar tilgreindra þátta, þ. á m. fötlunar, sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11., og 12. gr. laganna. Í III. kafla laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er fjallað um kærunefnd jafnréttismála. Nefndin tekur til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, en þar undir falla m.a. lög nr. 86/2018, og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin. Erindi skulu berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020.

Teljið þér á rétt yðar hallað á grundvelli einhverra þeirra þátta sem fram koma í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 getið þér samkvæmt framangreindu freistað þess að beina erindi til kærunefndar jafnréttismála. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá nefndinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.