Börn

(Mál nr. 11386/2022)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að viðkomandi yrði gert að greiða 50% aukið meðlag. Gerðar voru athugasemdir við meðferð málsins, rökstuðning ráðuneytisins og málshraða. 

Fyrir lá að tekjur mannsins á viðmiðunartímabilum voru talsvert yfir viðmiðum sem litið er til við mat á hvort foreldri geti greitt aukið meðlag. Samkvæmt því og öðrum gögnum málsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til að fullyrða að mat ráðuneytisins hefði verið bersýnilega óforsvaranlegt eða að úrskurðurinn hefði ekki samræmst lögum. Sama gegndi um rökstuðning þess. Þá taldi umboðsmðaur ekki heldur tilefni til athugasemda við að manninum  hefði ekki verð veitt sérstakt færi á að tjá sig um uppfærðar upplýsingar og gögn í málinu. Ekki yrði annað ráðið en gefist hefði tækifæri til að tjá sig sig um þær upplýsingar og gögn sem lögð hefðu verið til grundvallar niðurstöðu ráðuneytisins.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. desember 2022.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 11. nóvember 2021, yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins 18. október 2021 í máli nr. DMR21040176. Með honum var úrskurður sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 26. febrúar 2021 staðfestur þar sem yður var gert að greiða 50% aukið meðlag með börnum yðar frá 1. mars 2021 til 18 ára aldurs barnanna. Kvörtun yðar lýtur að meðferð málsins hjá ráðuneytinu, en í henni gerið þér m.a. athugasemdir við að hafa ekki fengið að tjá yður um gögn sem ráðuneytið aflaði við meðferð málsins auk þess sem þér gerið athugasemdir við rökstuðning ráðuneytisins og málshraða.

Í tilefni af kvörtun yðar var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 11. janúar sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið afhenti umboðsmanni afrit af öllum gögnum málsins. Svar ráðuneytisins ásamt umbeðnum gögnum barst 17. janúar sl. Ráðuneytinu var ritað bréf að nýju 16. mars sl., þar sem óskað var eftir að það léti í té tilteknar skýringar. Svar ráðuneytisins barst umboðsmanni 20. júní sl. Var yður gefinn kostur á að koma athugasemdum af því tilefni á framfæri en þær bárust ekki. Þar sem þér fenguð afrit af framangreindum bréfum er ekki þörf á að rekja efni þeirra nánar, nema að því leyti sem þýðingu hefur fyrir niðurstöðu málsins.

  

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. barnalaga nr. 76/2003 úrskurðar sýslumaður um meðlag við þær aðstæður sem ákvæðið tiltekur. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laganna skal meðlag ákveðið með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þ. á m. aflahæfi þeirra. Dómsmálaráðuneytið gefur að auki út leiðbeiningar um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um meðlag umfram lágmarksmeðlag samkvæmt 5. mgr. 57. gr. laganna. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögunum er tekið fram um þessa grein að þegar sett er fram krafa um aukið meðlag verði ákvörðun um meðlagsfjárhæð almennt byggð á upplýsingum og gögnum sem aðilar láta úrskurðaraðila í té um þarfir barns, fjárhag og félagslega stöðu foreldra og aflahæfi þeirra. Hafi meðlagsgreiðandi fjárhagslegt bolmagn til þess að greiða aukið meðlag með barni sínu, að teknu tilliti til atvika máls að öðru leyti, sé viðkomandi gert að greiða aukið meðlag. Viðmiðunartekjur ráðuneytisins séu framreiknaðar árlega til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs og sendar sýslumönnum (Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 946).

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 64. gr. laganna gat sýslu­maður með úrskurði breytt staðfestum samningi um meðlag eða dóm­sátt, ef rökstudd krafa kom fram um það, ef aðstæður höfðu breyst verulega, ef samningurinn gekk í ber­högg við þarfir barnsins eða ef samningurinn var ekki í samræmi við fjár­hagsstöðu foreldranna.

Fyrir liggur í málinu að þér og barnsmóðir yðar, B, gerðuð með yður samning um meðlagsgreiðslur sem staðfestur var af sýslu­manninum á höfuðborgarsvæðinu 12. janúar 2017. Samkvæmt samningnum áttuð þér að greiða tvöfalt meðlag með börnum yðar. Með beiðni 28. maí 2020 óskuðuð þér eftir því við sýslu­mann að meðlagsskylda yðar yrði lækkuð úr tvöföldu í einfalt meðlag. Meðal þeirra röksemda sem þér byggðuð á var að tekjur yðar hefðu lækkað umtalsvert í kjölfar þess að þér sögðuð upp starfi yðar. Í úrskurði ráðuneytisins kom fram að það teldi yður hafa sýnt fram á að hagir yðar hefðu breyst frá því samkomulag var gert um greiðslu tvöfalds meðlags með börnunum í janúar 2017. Þá er rakið að meðaltekjur yðar á tímabilinu frá 1. janúar 2019 til 30. september 2021 hafi verið um 1.896.000 krónur á mánuði sem sé umtalsvert yfir viðmiðunum, samkvæmt viðmiðunartöflu ráðuneytisins frá 5. janúar 2021, sem foreldri þurfi að hafa til að teljast geta greitt tvöfalt meðlag. Væri einungis litið til framreiknaðra tekna fyrir það tímabil sem af væri af árinu 2021 lægi jafnframt fyrir að tekjur yðar væru yfir þeim viðmiðum sem ráðuneytið hefði gefið út að aðili þyrfti að hafa til að geta greitt hálft aukið meðlag með tveimur börnum. Þá segir m.a:

„Það er mat ráðuneytisins að virtum gögnum málsins og teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið að föður verði gert að greiða hálft aukið meðlag með börnunum [...]. Vegur þungt í því mati að börnin eru búsett hjá móður, umgengni þeirra við föður er ekki slík að áhrif hafi á niðurstöðu málsins og tekjur föður eru umfram viðmið eins og rakið hefur verið.“

  

2

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftir­lit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum um hann og tryggja rétt borgarana gagnvart stjórn­völdum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórn­sýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þegar leitað er til sýslumanna, eða eftir atvikum til dómsmálaráðuneytisins, með beiðni um breytingu á samningi um meðlag njóta þessi stjórnvöld ákveðins svigrúms til mats enda kveða framangreind ákvæði barnalaga ekki með fortakslausum hætti á um fjárhæð þess meðlags sem foreldri skuli greiða með barni sínu. Við þessar ákvarðanir eru stjórnvöld þó sem endranær bundin við reglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð og efnislega niðurstöðu. Þurfa þessar ákvarðanir því ávallt að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og vera í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hefur athugun mín í tilefni af kvörtun yðar beinst að því hvort þessum kröfum hafi verið fullnægt í máli yðar.

Af gögnum málsins verður ráðið að tekjur yðar á framangreindum viðmiðunartímabilum hafi verið talsvert yfir viðmiðum í fyrrgreindri viðmiðunartöflu ráðuneytisins. Eftir að hafa kynnt mér úrskurðinn sem og gögn málsins að öðru leyti tel ég mig þá ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat ráðuneytisins hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða að úrskurðurinn hafi að öðru leyti ekki samræmst lögum. Árétta ég sérstaklega í því sambandi að það er ekki hlut­verk umboðsmanns við þessar aðstæður að láta í ljós álit sitt á því hvaða efnislegu ákvörðun þar til bært stjórnvald hefði átt að taka heldur einungis að hafa eftirlit með því að stjórnvöld fylgi lögum í störfum sínum.

Þá tel ég ekki heldur forsendur til að gera athugasemdir við rökstuðning í úrskurði ráðuneytisins enda verður ekki betur séð en að þar hafi verið gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem lágu til grundvallar mati ráðuneytisins í málinu, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ. á m. tölulegum forsendum með vísan til viðmiða samkvæmt þágildandi viðmiðunartöflu ráðuneytisins. Einnig er í úrskurðinum gerð grein fyrir öðrum sjónarmiðum sem komu til álita við mat ráðuneytisins í samræmi við það sem áður greinir um athugasemdir í frumvarpi til barnalaga um 57. gr. laganna.

  

3

Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við að þér hafið ekki fengið að kynna yður gögn sem barnsmóðir yðar hafi lagt fram við meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Þá vísið þér jafnframt til þess að þér hafið ekki fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum yðar á framfæri við þær uppfærðu upplýsingar um tekjur yðar sem ráðuneytið aflaði frá ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þegar aðila er ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafi bæst við í máli hans og telja verður að upp­lýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær.

Hvað fyrra atriðið snertir tek ég fram að fyrir liggur að gagnaðila í máli yðar var kynnt kæra yðar til ráðuneytisins. Í kjölfarið skilaði hún greinargerð til ráðuneytisins í júní 2021 auk þess sem hún skilaði viðbótarupplýsingum til ráðuneytisins í september 2021. Í svari dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns var m.a. rakið að ekkert hefði komið fram í gögnunum frá barnsmóður yðar sem áhrif hefði á niðurstöðu málsins og sem þér hefðuð ekki þegar tjáð yður um við meðferð málsins hjá sýslumanni. Þannig hefði t.a.m. verið ljóst, líkt og tekið hefði verið fram í úrskurði ráðuneytisins, að aðila greindi á um hvernig umgengni barnanna við yður væri háttað en ljóst væri að umgengnin teldist ekki vera það mikil að áhrif hefði á ákvörðun um meðlagsgreiðslur í málinu. Afstaða yðar til bæði umgengni og kostnaðarliða við framfærslu barnanna hefði því þegar legið fyrir að því marki sem þýðingu hefði haft fyrir niðurstöðu málsins.

Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn og svör ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við að yður hafi ekki verið gefið sérstakt færi á að koma að frekari sjónarmiðum vegna þeirra upplýsinga sem því bárust frá barnsmóður yðar. Horfi ég þá til þess að ég fæ ekki annað ráðið en að yður hafi verið veitt færi á að tjá yður um þær upplýsingar og gögn sem lögð voru til grundvallar niðurstöðu ráðuneytisins.

Hvað síðara atriðið varðar tek ég fram að í kæru yðar til ráðuneytisins komuð þér m.a. á framfæri upplýsingum  um tekjur yðar og fjárhagslega stöðu. Í samræmi við rannsóknarskyldu sína aflaði ráðuneytið jafnframt upplýsinga frá ríkisskattstjóra á grundvelli, 72. gr. barnalaga í því skyni að staðreyna framlagðar upplýsingar. Í téðu svarbréfi ráðuneytisins er áréttað af þess hálfu að ekkert nýtt hafi komið fram í gögnunum frá ríkisskattstjóra og því hafi ráðuneytinu ekki þótt ástæða til að veita yður tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum yðar af þessu tilefni. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að líta svo á að meðferð málsins hafi að þessu leyti verið í andstöðu við 13. gr. stjórn­sýslulaga.   

Aðrar athugasemdir sem fram koma í kvörtuninni gefa að mínu áliti ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

     

III

Samkvæmt framangreindu tel ég ekki tilefni til sérstakra athugasemda við fyrrgreindan úrskurð dómsmálaráðuneytisins í tilefni af kvörtun yðar. Vil ég þó vekja athygli á því að á grundvelli 1. mgr. 65. gr. barnalaga er sýslumanni heimilt að breyta meðlagsúrskurði stjórnvalds og ákvörðun um meðlag komi fram rökstudd krafa þess efnis, enda sé sýnt fram á að hagir foreldra eða barns hafi breyst. Þér getið því leitað að nýju til sýslumanns ef þér teljið í framtíðinni að aðstæður, svo sem fjárhagslegar aðstæður yðar, séu breyttar frá því að úrskurður sýslumanns 26. febrúar 2021 var kveðinn upp.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.