Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 11734/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita skerta fjárhagsaðstoð á tilteknu tímabili.  

Að mati bæði úrskurðarnefndarinnar og Reykjavíkurborgar hafði viðkomandi átt inneign á bankareikningi sem borið hefði að nýta til framfærslu áður en til fjárhagsaðstoðar kæmi enda gengju reglur borgarinnar út frá því að fjárhagsaðstoð væri neyðarúrræði fyrir þá sem ekki hefðu aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Umboðsmaður fékk ekki annað séð en sjónarmiðin sem lögð hefðu verið til grundvallar við afgreiðslu umsóknarinnar væru í samræmi við ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og það svigrúm sem sveitarfélög hefðu í þessum efnum. Ekki var því tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. desember 2022.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 16. júní sl. sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 10. febrúar sl. í máli nr. 647/2021. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita yður fjárhagsaðstoð sem nam 58.668 kr. fyrir tímabilið 1 til 31. júlí 2021. Í kvörtuninni kemur fram að byggt sé á sömu rökum og varðandi fyrri kvörtun yðar til umboðsmanns í máli nr. 11478/2022 en með ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi verið ákveðið að skerða fjárhagsaðstoð til yðar á sömu forsendum og í því máli.

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd velferðarmála ritað bréf 28. júní sl. og óskað eftir því að nefndin afhenti umboðsmanni afrit allra gagna málsins. Þau bárust 5. júlí sl.

  

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og þar tilgreindar siðareglur.

Samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, skulu sveitarfélög sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og tryggja að íbúar þeirra geti séð fyrir sér og sínum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Í VI. kafla laganna er gert ráð fyrir því að sveitarfélög geti veitt íbúum sínum fjárhagsaðstoð og sveitarstjórn setji nánari reglur um framkvæmd slíkrar aðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar sem meti svo þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 1. og 2. mgr. 21. gr. laganna. Ljóst er að framangreind ákvæði miða að því almenna markmiði, sem lá til grundvallar setningar laga nr. 40/1991, á þá leið sveitarfélög njóti ákveðins svigrúm til að meta hvers konar þjónustu þau veita með hliðsjón af aðstæðum á hverjum stað og tíma.

Samkvæmt framangreindu gera lög nr. 40/1991 ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og félagsmálanefnd meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við þær. Lögin gera þannig ráð fyrir að sveitarfélögum sé veitt verulegt svigrúm við framkvæmd þeirra verkefna sem þeim hafa verið falin með lögunum, þ. á m. við útfærslu á því hvernig standa skuli að fjárhagsaðstoð til einstaklinga og fjölskyldna. Þegar löggjafinn hefur með þessum hætti falið stjórnvöldum mat á tilteknum atriðum er það almennt ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis, samkvæmt þeim lögum sem um hann gilda, að leggja sjálfstætt mat á þau. Athugun umboðsmanns í slíkum tilvikum beinist því fyrst og fremst að því hvort stjórnvöld hafi reist mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og forsvaranlegu mati á gögnum málsins auk þess hvort gætt hafi verið að réttum málsmeðferðarreglum.

  

III

Niðurstaða Reykjavíkurborgar, sem úrskurðarnefndin staðfesti í máli nr. 647/2021, var reist á 7. mgr. 12. gr. þágildandi reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. apríl 2021. Þar kom fram að ætti umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota, eða hefði hann nýlega selt eignir sínar, skyldi honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans væru lægri en grunnfjárhæð. Ætti umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili, eignir sem nýst gætu til framfærslu ætti hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er vísað í meginreglu 1. mgr. 19. gr. laga nr. 41/1991 þar sem fram kemur m.a. að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig. Reglur Reykjavíkurborgar gangi út frá því að fjárhagsaðstoð sé neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu. Samkvæmt gögnum málsins hefðuð þér átt inneign á bankareikningi í júnímánuði sem hafi verið yfir grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafi verið um eign að ræða sem yður hafi borið að nýta yður til framfærslu í júlí 2021 áður en til fjárhagsaðstoðar kæmi frá sveitarfélaginu. Staðfesti nefndin því ákvörðun Reykjavíkurborgar.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið, m.a. um ákvæði laga nr. 40/1991 og það svigrúm sem lög gera ráð fyrir að veita verði sveitarfélögum við nánari útfærslu á því hvernig standa skuli að fjárhagsaðstoð til handa einstaklingum og fjölskyldum, fæ ég ekki annað séð en að framangreind sjónarmið, sem virðast hafa verið lögð til grundvallar við afgreiðslu umsóknar yðar um fjárhagsaðstoð, séu í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991. Því tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Reykjavíkurborgar um að greiða yður skerta fjárhagsaðstoð vegna tímabilsins sem um ræðir.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a.-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.