Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11950/2022)

Kvartað var yfir skráningum í sjúkraskrá.  

Þar sem ekki varð ráðið að athugasemdum hefði verið komið á framfæri við Landspítala eða eftir atvikum landlækni, að fenginni niðurstöðu spítalans, voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. desember 2022.

  

  

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis, 8. desember sl., þar sem þér kvartið yfir skráningum í sjúkraskrá yðar í tilefni af vitjun yðar á Landspítala í ágúst sl. Nánar tiltekið verður ráðið að þér séuð ósáttar við tilgreiningu læknis og svokallaðs beiðanda í sjúkraskrá yðar. Þá bárust mér tvö tölvubréf frá yður 7. desember sl. þar sem þér gerið athugasemdir við niðurstöðu umboðsmanns í tilefni af fyrri kvörtun yðar í máli nr. 11927/2022 sem lokið var með bréfi, 30. nóvember sl.

Um sjúkraskrár er fjallað í lögum nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skal skrá athugasemd sjúklings í sjúkraskrá, telji hann sjúkraskrárupplýsingar sínar rangar eða villandi. Jafnframt er sjúklingi unnt að leggja fyrir umsjónaraðila sjúkraskrár að leiðrétta bersýnilega rangar eða villandi upplýsingar í sjúkraskrá sinni. Samkvæmt 12. og 13. tölul. 3. gr. sömu laga er umsjónaraðili sjúkraskráa læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður sem heilbrigðisstofnun eða starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna hefur falið að hafa eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga sé í samræmi við lög nr. 55/2009, eða heilbrigðisstarfsmaður sem starfar einn á stofu. Synji umsjónaraðili beiðni um leiðréttingu getur sjúklingur skotið þeirri ákvörðun til landlæknis með kæru, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Ástæða þess að ég geri grein fyrir þessu er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta megi máli til æðra stjórn­valds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir framangreint ákvæði á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leið­rétta ákvarðanir áður en farið er til aðila utan stjórn­kerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við Landspítala eða eftir atvikum landlækni, að fenginni niðurstöðu spítalans. Að þessu gættu, og eins og kvörtunin liggur fyrir núna, tel ég rétt að þér leitið fyrst með athugasemdir yðar til framangreindra stjórnvalda áður en ég fjalla um hana. Ef þér teljið yður enn rangindum beitta að fenginni afstöðu landlæknis getið þér leitað til umboðsmanns á ný.

Þá hef ég kynnt mér efni tölvubréfa yðar 7. desember sl. en fæ ekki séð að þær athugasemdir sem þar eru gerðar hafi ekki þegar komið fram af yðar hálfu eða breyti afstöðu minni til fyrra máls yðar. Ég lauk athugun minni á því máli með bréfi 30. nóvember sl. þar sem ég taldi að ekki hefði orðið slíkur dráttur á afgreiðslu beiðni yðar að tilefni væri til að ég tæki erindi yðar til meðferðar að svo stöddu. Erindi yðar nú gefa mér ekki tilefni til að endurskoða þá afstöðu mína.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.