Félög.

(Mál nr. 11955/2022)

Kvartað var yfir því að stéttarfélag krefðist greiðslu félagsgjalds þótt viðkomandi hefði kosið að standa utan félagsins. 

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til félagsins voru ekki forsendur til að fjalla um kvörtunina að því marki sem hún laut að samskiptum mannsins við það. Umboðsmaður fór aftur á móti sérstaklega yfir ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna þar sem fjallað er um skyldu launþega til að greiða gjald til stéttarfélags. Benti hann á að e.t.v. mætti freista þess að bera athugasemdirnar í kvörtuninni undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. desember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. desember sl. yfir að [stéttarfélag] krefji yður um greiðslu félagsgjalds þótt þér hafið kosið að standa utan félagsins.

Í upphafi tek ég fram að samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er markað í lögum nr. 85/1997.

[Stéttarfélagið] er ekki stjórnvald í skilningi stjórnsýslu­réttar og starfsemi þess telst ekki til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga. Af þessum sökum fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar að því marki sem hún snýr að samskiptum yðar við félagið.

Án tillits til framangreinds fæ ég ekki betur séð en að kvörtun yðar beinist efnislega að rétti yðar til að vera undanþeginn því að greiða gjöld til stéttarfélags sem þér eruð ekki aðili að. Samkvæmt kvörtun yðar munuð þér hafa starfað á sjúkrahúsi hér á landi við afleysingar í samtals 16 daga á tilteknu árs tímabili. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið félaginu ekki heimilt að krefja yður um téð gjald enda geti þessi störf yðar ekki talist „aðalstarf“. Í því sambandi vísið þér til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 94/1986, um kjara­samninga opinberra starfsmanna, gildi lögin um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga á grundvelli laganna og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf.

Af framangreindu tilefni tek ég fram að um skyldu launþega til að greiða gjald til stéttarfélags sem hann á ekki aðild að er fjallað í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986. Ákvæðið er svohljóðandi:

Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttar­félags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttar­félags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjár­mála­ráð­herra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna við­komandi stéttarfélagi.

Af orðalagi ákvæðisins verður ráðið að þegar ríkisstarfsmaður, sem lög nr. 94/1986 taka til, kýs að standa utan stéttarfélags samkvæmt þeim lögum gerir téð 2. mgr. 7. gr. laganna ráð fyrir að ráðherra geti ákveðið að um laun og önnur starfskjör viðkomandi fari samkvæmt tilteknum kjarasamningi. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 25. júlí 2018 í máli nr. 9248/2017 var enn fremur lagt til grundvallar að með ákvæðinu væri ráðherra, en ekki því stéttarfélagi sem við ætti hverju sinni, fengið vald til að taka einhliða ákvörðun um eftir hvaða kjara­samningi ætti að fara um laun og starfskjör starfsmannsins og þá „ákvörðun“ skyldi tilkynna viðkomandi stéttarfélagi. Í kjölfarið yrði greiðsluskylda starfsmannsins virk. Var það því niðurstaða umboðsmanns að ráðherra væri við þessar aðstæður, sem stjórnvaldi, falið að taka ákvörðun um rétt og skyldur starfsmannsins að þessu leyti sem félli undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Af þessu tilefni tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðs­manns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en endanleg afstaða stjórnvalda til þess liggur fyrir.

Þar sem hvorki verður ráðið af kvörtun yðar að fyrir liggi sérstök ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 né að þér hafið borið athugasemdir yðar við greiðsluskyldu eða fjárhæð gjaldsins undir ráðuneytið að öðru leyti, tel ég, með hliðsjón af framangreindu og með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, ekki rétt að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að ef þér freistið þess að leita til ráðuneytisins og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín á ný innan eins árs frá því afstaða þess liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar.