Fangelsismál.

(Mál nr. 11958/2022)

Kvartað var yfir því að aðeins einn fangavörður væri á næturvakt á Kvíabryggju.  

Þar sem kvörtunin fól fremur í sér almennar athugasemdir við aðbúnað og öryggi í fangelsinu en laut hvorki að hagsmunum viðkomandi beinlínis eða réttindum umfram aðra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki hana til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. desember 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 12. desember sl. yfir því fyrirkomulagi að einungis einn fangavörður standi næturvaktir í fangelsinu Kvíabryggju í ljósi þeirra áhrifa sem slíkt fyrirkomulag hafi á öryggi fanga og fangavarða.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki verður séð að athugasemdir yðar beinist að tiltekinni athöfn eða ákvörðun fangelsisins Kvíabryggju heldur feli þær fremur í sér almennar athugasemdir við aðbúnað og öryggi í fangelsinu. Eru því ekki skilyrði að lögum til að ég taki kvörtun yðar til nánari athugunar.

Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti beinlínis snert hagsmuni hans eða réttindi getur þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Þá hefur umboðsmaður Alþingis einnig því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsissviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Á grundvelli þess hlutverks sinnir umboðsmaður eftirliti með öllum fangelsum landsins, m.a. með eftirlitsheimsóknum. Í því sambandi athugast að í nýlegri skýrslu embættisins vegna heimsóknar í fangelsið að Kvíabryggju í mars 2022 er á bls. 30 fjallað um mönnun og sérstaklega vikið að því viðvera eins starfsmanns á næturvakt kunni að vekja upp spurningar um öryggi. Í skýrslunni er þeirri ábendingu beint til fangelsisins að taka til skoðunar og meta hvort mönnun í fangelsinu sé viðhlítandi m.t.t. öryggis fanga og starfsfólks og aðstæðna og verkefna hverju sinn. Skýrslan er aðgengileg á vefsíðu umboðsmanns.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.