Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11777/2022)

Kvartað var yfir að landlæknir hefði ekki afgreitt erindi.  

Í svari embættisins kom fram að ákveðið hefði verið að rita álit í málinu og í málum af þessum toga væri meðferðartími almennt langur. Ekki varð því betur séð en málið væri í farvegi og í ljósi skýringa á málshraðanum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega að svo stöddu. Aftur á móti óskaði hann eftir nánari upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu vegna stöðu mála hjá landlækni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. desember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 11. júlí sl. yfir því að kvörtun yðar til landlæknis 24. febrúar 2021 vegna andláts bróður yðar hafi ekki verið afgreidd.

Í tilefni af kvörtun yðar var landlækni ritað bréf 9. ágúst sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu kvörtunar yðar. Í svari embættisins 26. ágúst sl. kom fram að gagnaöflun í máli yðar væri lokið og að ákveðið hefði verið á fundi 19. júlí sl. að rita álit í málinu. Í bréfinu var jafnframt tekið fram að málsmeðferðartími væri almennt langur í málum af þessum toga hjá embættinu sem m.a. skýrðist af auknum málafjölda og skorti á fullnægjandi á fjárheimildum.

Með bréfi 9. september sl. var landlækni ritað á ný þar sem m.a. var óskað upplýsinga um almennt verklag landlæknis í tengslum við móttöku og úrvinnslu kvartana og hvort og þá til hvaða aðgerða embættið hafi gripið til þess að koma til móts við aukinn fjölda þeirra. Svör landlæknis bárust 29. september sl. þar sem gerð var grein fyrir verklagi embættisins að þessu leyti og samskiptum þess við heilbrigðisráðuneytið vegna þess vanda sem uppi er hjá embættinu við meðferð umræddra kvörtunarmála.

Ég tek fram að þrátt fyrir að ekki komi skýrt fram í svörum landlæknis hvenær nákvæmlega fyrirsjáanlegt er að máli yðar ljúki verður ekki betur séð en að mál yðar sé í farvegi hjá embættinu. Í ljósi þess og þeirra skýringa sem ég hef fengið fyrir þeirri stöðu sem uppi er hvað varðar málshraða tel ég ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega í máli yðar að svo stöddu en ekki liggur annað fyrir en að tafir innan málaflokksins séu almennar og stafi af að­stæðum embættisins en ekki bundnar við mál yðar sérstaklega. Hef ég því ákveðið að ljúka meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Kvörtun yðar og þau svör sem mér hafa borist frá landlækni hafa þó gefið mér tilefni til að óska eftir nánar greindum upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu.

Vegna kvörtunar yðar og þeirrar stöðu sem uppi er í máli yðar tel ég rétt að benda yður á að samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til heilbrigðisráðherra. Í ljósi þessa bendi ég yður á að samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Ef þér teljið sérstakt tilefni til  getið þér freistað þess að leita til heilbrigðisráðuneytisins vegna tafa á meðferð málsins. Ef að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar þér teljið yður enn beittan rangsleitni er yður fært að leita til mín á ný innan árs, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

   


 

   

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra 23. desember 2022.

   

Til umboðsmanns Alþingis leitaði nýlega nafngreindur maður með kvörtun yfir því að kvörtun hans til landlæknis á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, hefði ekki verið afgreidd. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, í kjölfar þess að upplýst var um að almennar tafir væru á meðferð kvörtunarmála hjá landlækni.

Svör landlæknis og gögn sem þeim fylgdu bera með sér að málsmeðferðartími kvörtunarmála hjá embættinu sé almennt afar langur og að tafirnar stafi fyrst og fremst af auknum málafjölda, m.a. kvörtunarmála vegna heilbrigðisþjónustu, og skorti á fullnægjandi fjárheimildum. Þá hafi umfangsmeiri kvörtunarmálum fjölgað talsvert. Bent er á að kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu sérfræðinga hafi aukist mikið og m.a. valdið því að kvörtunarmál hafi verið sett á bið vegna skorts á fjármagni til þess að afla umsagnar óháðs sérfræðings í samræmi við 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007. Landlæknir hafi á liðnum árum ítrekað vakið athygli heilbrigðisráðherra á þessum almenna vanda. Þá er rakið að embættið hafi gripið til ýmissa hagræðingarráðstafana á undanförnum árum til að mæta umræddum vanda sem ekki virðist duga til.

Með vísan til framangreinds er þess óskað, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997 að heilbrigðisráðuneytið upplýsi umboðsmann um hvort og þá hvaða ráðagerðir séu uppi til að bæta úr þeim vanda sem virðist uppi hjá landlækni. Í þessum efnum er einkum haft í huga að ef fyrir liggur að viðvarandi ástand í andstöðu við lög hafi skapast í starfsemi stofnunar verði að jafnaði að ganga út frá því að á ráðherra, sem fer með yfirstjórn viðkomandi málaflokks, hvíli sú skylda að gera virkar ráðstafanir til að koma starfsemi slíkrar stofnunar í lögmætt horf, enda sé ljóst að mati ráðuneytis að ráðstafanir forstöðumanns hafi ekki náð tilætluðum árangri, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 7. júlí 2009 í máli nr. 5718/2009.

Framangreindra upplýsinga er óskað svo unnt sé að meta hvort tilefni sé til að taka störf stofnunarinnar, og eftirlit ráðuneytisins með þeim, til almennrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.

Þess er óskað að umbeðin svör berist umboðsmanni ekki síðar en 20. janúar nk.