Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11904/2022)

Kvartað var yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í tengslum við starfslok. 

Þar sem kvörtunin barst utan þess ársfrests sem áskilinn er til að umboðsmaður geti tekið mál til meðferðar voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um hana.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. desember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 31. október sl. yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í tengslum við starf yðar og starfslok sem kennari við X-skóla. Í kvörtuninni eru tilgreind þrjú kvörtunarefni; að um sé að ræða ólögmæta þvingun til að segja upp störfum þegar starfshlutfall er minnkað vegna töku lífeyris, að ekki hafi verið rétt staðið að ráðningu Y-kennara við X-skóla og að ekki hafi verið rétt staðið að meðhöndlun eineltiskvörtunar yðar til Reykjavíkurborgar.

Í tilefni kvörtunarinnar var skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 3. nóvember sl. þar sem óskað var gagna og upplýsinga um hvernig starfslokum yðar hefði verið háttað svo og um hvort fyrir lægi kvörtun af yðar hálfu yfir framkomu skólastjóra X-skóla og þá hvort meðferð hennar væri lokið eða eftir atvikum hvað liði meðferð hennar.

Umbeðin gögn og upplýsingar bárust með bréfi skóla- og frístundasviðs 14. desember sl. Þar kemur fram að þér sögðuð upp föstu starfi yðar við X-skóla 29. mars 2020 og í framhaldi af því hefðuð þér verið ráðnir í tímabundið hlutastarf við kennslu við þann skóla frá 1. ágúst 2020 til 31. júlí 2021 en ekki hafi komið til frekari ráðningar eftir síðastnefnt tímamark. Þá kemur fram að ráðningarferli vegna starfs Y-kennara við X-skóla, sem auglýst var í maí 2021, hafi lokið með tölvubréfi til umsækjenda 3. júní 2021 þar sem skólastjóri tilkynnti þeim þá ákvörðun að hætt hefði verið við ráðninguna. Enn fremur kemur fram að meðferð kvörtunar yðar yfir framkomu skólastjóra X-skóla hafi lokið með bréfi skóla- og frístundasviðs til yðar 31. maí 2021 svo sem áréttað hafi verið í bréfi til yðar 29. september þess árs.

Ástæða þess að ég rek framangreint er sú að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli berast innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þegar kvörtun yðar barst var meira en ár lið liðið frá starfslokum yðar og ákvörðunum þar að lútandi. Sama er að segja um þá ákvörðun gagnvart yður og öðrum umsækjendum um starf Y-kennara að hætta við ráðningu svo og málslok vegna kvörtunar yðar til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar, sbr. áðurnefnt skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.