Kvartað var yfir svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurnum.
Í ljósi samskipta viðkomandi við ráðuneytið og svara þess til umboðsmanns taldi hann ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á kvörtuninni.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. desember 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 5. desember sl. yfir því að í svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurnum yðar 15. og 18. júlí sl. hafi ekki komið fram nafn þess starfsmanns eða starfsmanna sem að þeim stóðu.
Í tilefni af kvörtun yðar var fjármála- og efnahagsráðuneytinu ritað bréf 12. desember sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti upplýsingar um hvort það hefði sett sér sérstök viðmið um verklag við mat á því hvort nafn þess starfsmanns sem svari erindi skyldi tilgreint og þá hvert efni þeirra væri.
Svar ráðuneytisins barst með bréfi 15. desember sl. en þar segir að þau viðmið sem ráðuneytið horfi til leiði af þeim kröfum sem gerðar séu til forms og framsetningar stjórnvaldsákvarðana og yður hafi verið greint frá þeim með tölvubréfi 4. nóvember sl. Í umræddu bréfi, sem fylgdi með svari ráðuneytisins, kemur fram að tíðkast hafi að miðla upplýsingum í gegnum almenna netfang ráðuneytisins og algengast sé að það sé gert vegna fyrirspurna sem unnt sé að svara á almennan hátt, s.s. með tilvísunum í upplýsingar sem birtar hafi verið opinberlega. Ekki sé fyrir að fara viðmiðum um að notast skuli við almenna netfangið í ákveðnum tilfellum og sé því heimilt að senda slíkar upplýsingar frá netföngum starfsmanna.
Í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur verið gengið út frá því að það leiði af þeim kröfum sem gera verði til forms og framsetningar stjórnvaldsákvarðana, sem og vönduðum stjórnsýsluháttum, að nöfn þeirra starfsmanna sem afgreitt hafi mál komi að jafnaði fram við birtingu slíkra ákvarðana, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis 2. júlí 2021 í máli nr. 10652/2020. Þótt ekki sé útilokað að slíkar kröfur kunni að eiga við um önnur erindi sem berast frá stjórnvöldum tel ég þó, í ljósi efnis samskipta yðar við ráðuneytið, ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á kvörtun yðar.
Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.