Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11946/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru.  

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að til stæði að svara því sem eftir stæði og ljúka málinu. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. desember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 5. desember sl. f.h. A vegna tafa á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru frá 3. nóvember 2021. Lýtur kæran að synjun á beiðni A um frestun á afplánun.

Í tilefni af kvörtuninni var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 8. desember sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Í svari ráðuneytisins frá 19. desember sl. kemur m.a. fram að kærumálið hafi verið fellt niður hjá ráðuneytinu í kjölfar erindis 20. janúar 2022 þar sem fram kom að A hefði hafið afplánun og því væri sá hluti kærunnar sem laut að beiðni hans um frestun afplánunar dreginn til baka. Jafnframt segir að láðst hafi að svara öðrum athugasemdum sem fram komu í kærunni en þeim sem beinlínis lutu að ákvörðuninni um að synja beiðni A um frestun. Mun ráðuneytið svara þeim athugasemdum í janúar nk.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu máls yðar og nú liggja fyrir áform ráðuneytisins um að ljúka málinu tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. læt ég athugun minni vegna málsins lokið. Standist áform ráðuneytisins ekki eða ef þér teljið umbjóðanda yðar enn beittan rangsleitni að fengnum svörum ráðuneytisins, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.