Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11969/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Umhverfisstofnunar á erindi.  

Þar sem stofnunin hafði upplýst félagið um að ráðgert væri að svara erindinu von bráðar var ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. desember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 16. desember sl., f.h. A ehf., yfir töfum á afgreiðslu Umhverfisstofnunar á erindi til stofnunarinnar vegna leyfis til vísindalegra rannsókna sem félagið hafði áður fengið útgefið hjá utanríkisráðuneytinu 8. júlí sl. Laut erindið að því að óskað var afstöðu stofnunarinnar til þess hvort leyfisveitingar af hennar hálfu væri þörf.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum funduðu fyrirsvarsmenn félagsins með fulltrúa Umhverfisstofnunar 15. júlí sl. Þá mun félagið hafa sent stofnuninni formlegt erindi 20. júlí sl. þar sem óskað var eftir téðri afstöðu þess og virðast hafa farið fram umfangsmiklar bréfaskriftir milli félagsins og stofnunarinnar í kjölfarið. Samkvæmt þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni upplýsti umhverfisstofnun félagið, með tölvubréfi 14. desember sl., um að stofnunin ráðgerði að ljúka við að svara erindi yðar í byrjun „næstu viku“, þ.e. í vikunni, sem hófst 18. desember sl.

Í ljósi áforma stofnunarinnar um að svara erindi félagsins í þeirri viku sem nú er að líða verður ekki talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á málsmeðferðinni að nægt tilefni sé til skoðunar hjá umboðsmanni að svo stöddu. Þá verður og að hafa hliðsjón af því að þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa hefur sú leið verið farin að spyrjast fyrir hjá umræddu stjórnvaldi um hvað líði afgreiðslu og meðferð viðkomandi máls og þá einkum ef ekkert liggur fyrir um hvort aðilar máls hafi verið upplýstir um hvenær niðurstöðu sé að vænta.

Í ljósi framangreinds og upplýsinga um stöðu málsins tel ég ekki tilefni til þess að taka það til frekari athugunar að svo stöddu en tek fram að verði erindi félagsins enn óafgreitt hjá Umhverfisstofnun um miðjan næsta mánuð, getið þér leitað á nýjan leik til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.