Málsmeðferðir og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 11971/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð Fangelsismálastofnunar.  

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að ákvarðanir Fangelsismálastofnunar hefðu verið bornar undir dómsmálaráðuneytið og því ekki skilyrði til að fjalla frekar um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 21. desember 2022. 

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. desember sl. yfir málsmeðferð fangelsismálastofnunar. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti annars vegar að ákvörðunum stofnunarinnar um að hafna umsóknum yðar um reynslulausn og hins vegar að töfum á því að yður hafi verið gefið tækifæri til að hitta lækni.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þar með talið æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Af kvörtun yðar er ljóst að í nýlegri eftirlitsheimsókn umboðsmanns í fangelsið Litla-Hrauni hafið þér rætt við starfsmenn umboðsmanns um þann hluta kvörtunar yðar er lýtur að umsóknum um reynslulausn. Ber kvörtunin og með sér að yður hafi verið ráðlagt að kæra þær ákvarðanir til dómsmálaráðuneytisins ef þér væruð ósáttir við afgreiðslu fangelsismálastofnunar, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið hvort þér hafið borið ákvarðanirnar undir dómsmálaráðuneytið eða að fyrir liggi niðurstaða þess.

Að því er þann hluta kvörtunar yðar, sem lýtur að töfum á veitingu heilbrigðisþjónustu innan fangelsisins, varðar verður af kvörtuninni ráðið að umkvörtunarefni yðar hafi verið borið upp við lækna og hjúkrunarfræðinga og að þér hafið þannig átt í samskiptum vegna heilsufars yðar, m.a. í formi læknisviðtals fyrir um það bil mánuði síðan. Í kvörtun yðar kemur fram að þér hafið nýlega leitað á nýjan leik til heilbrigðisstarfsmanna og fangavarða vegna veikinda yðar en að enn hafi ekki orðið af læknisviðtali. Í ljósi þess og   með vísan til þess stutta tíma, sem virðist liðinn frá síðustu ítrekun yðar, tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtun yðar að þessu leyti að svo stöddu.

Brestur af ofangreindum sökum lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu og lýk ég því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.