Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 11972/2022)

Kvartað var yfir samskiptum við Skattinn og starfsháttum hans. 

Hluti umkvörtunarefnisins féll utan þess ársfrests sem gæta þarf að til að umboðsmaður geti tekið mál til meðferðar. Þá var kæruleið ekki tæmd að því er snerti ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að hætta rannsókn máls. Að lokum var bent á að starfssvið umboðsmanns tæki almennt ekki til lögmanna en viðkomandi bent á úrskurðarnefnd lögmanna.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. desember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 19. desember sl. en af henni verður ráðið að hún sé sprottin af ágreiningi um rafræna undirskrift í tengslum við samskipti við Skattinn vegna tilgreinds einkahlutafélags. Virðast athugasemdir yðar einkum lúta að starfsháttum tilgreinds lögmanns en af gögnum er fylgdu kvörtuninni er ljóst að þér hafið og átt í samskiptum við skattayfirvöld og lögreglu vegna málsins.

Með kvörtun yðar fylgdu ýmis gögn er varpa ljósi á samskipti yðar við Skattinn, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu auk tveggja lögmanna. Samskipti yðar við Skattinn virðast að mestu hafa farið fram í maí- og júnímánuði ársins 2021 ef undan eru skilin tölvubréf 14. mars sl. og 27. apríl sl. þar sem starfsmaður Skattsins tilkynnir yður um að tiltekin skjöl á innra svæði stofnunarinnar verði ekki aðgengileg eftir tiltekinn tíma. Með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sem kveður á um að kvörtun skuli borin fram innan árs frá því að umræddur stjórnsýslugerningur var til lykta leiddur, er ljóst að meginhluti samskipta yðar við Skattinn fellur utan frestsins, sem tilgreindur er í ákvæðinu, og brestur því lagaskilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að þessu leyti. Þá er ekki tilefni til að gera athugasemd við leiðbeiningu starfsmanns Skattsins 27. apríl sl.

Af gögnum málsins er einnig ljóst að þér tilkynntuð lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hið ætlaða skjalafals. Með bréfi 12. maí sl. tilkynnti lögreglan að rannsókn á máli yðar hafi verið hætt. Í bréfinu var yður leiðbeint um heimild til að bera ákvörðun lögreglu undir ríkissaksóknara, sbr. 6. mgr. 52. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, er ekki unnt að kvarta til umboðs­manns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en endanleg afstaða stjórnvalda til þess liggur fyrir. Þar sem ekki verður ráðið af gögnum er fylgdu kvörtun yðar að þér hafið kært þessa ákvörðun til ríkissaksóknara svo sem yður var leiðbeint um af hálfu lögreglu brestur lagaskilyrði til að þessi þáttur kvörtunar yðar verði tekin til frekari skoðunar. Ef þér farið þá leið að bera ákvörðun lögreglustjóra undir ríkissaksóknara getið þér leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu hans.

Að endingu tel ég rétt að benda yður á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu mann í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Af þessu leiðir að starfsemi lögmanna fellur almennt utan starfssviðs umboðsmanns. Í þessu efni skal þó bent á að á grundvelli 3. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, er starfrækt úrskurðarnefnd lögmanna, sem leysir úr málum eftir ákvæðum laganna. Er yður bent á þann möguleika að freista þess að leita til nefndarinnar hafið þér eitthvað við rækslu lögmannsstarfa að athuga. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hver ættu að vera viðbrögð nefndarinnar við slíku erindi.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.