Menntamál.

(Mál nr. 11935/2022)

Kvartað var yfir brottvísun úr skóla.  

Þar sem málið hafði ekki verið lagt fyrir mennta- og barnamálaráðherra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. janúar 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. nóvember sl. yfir brottvísun yðar úr [tilteknum skóla] 10. október sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var mennta- og barnamálaráðherra ritað bréf 8. desember sl. þar sem óskað var eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það teldi framangreinda ákvörðun kæranlega til ráðuneytisins á grundvelli 5. mgr. 33. gr. a laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Væri afstaða ráðuneytisins að svo væri ekki var þess jafnframt óskað að það lýsti afstöðu sinni til þess hvort mál yðar gæti komið til umfjöllunar þess á öðrum grundvelli, eftir atvikum á grundvelli eftirlitshlutverks þess með starfsemi framhaldsskóla samkvæmt lögum nr. 92/2008.

Svör ráðuneytisins bárust með bréfi 28. desember sl. þar sem m.a. kemur fram að að því gefnu að þér hafið stundað nám sem fellur undir viðurkenningu [skólans] sem einkaskóla á framhaldsskólastigi, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 92/2008, sé afstaða ráðuneytisins sú að ákvörðun um brottvísun yðar úr skólanum sé kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli 5. mgr. 33. gr. a sömu laga.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórn­­valds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið kært ákvörðun [skólans] til ráðuneytisins í samræmi við framangreint eru ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að skammt sé þar til þriggja mánaða kærufrestur 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. 33. gr. a laga nr. 92/2008 líði, en hann tekur að líða þann dag sem aðila máls er tilkynnt um ákvörðun. Þá verður ekki séð að yður hafi verið leiðbeint um kæru­heimild eða kærufresti, svo sem skylt er samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993.

Ef þér ákveðið að kæra ákvörðun [skólans] til mennta- og barnamálaráðuneytisins og það telur að kæra yðar hafi borist að liðnum þriggja mánaða kærufresti reynir á hvort ráðuneytinu sé rétt að taka kæruna samt sem áður til meðferðar á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þar er mælt fyrir um að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Litið hefur verið svo á að skilyrði þessa ákvæðis geti verið uppfyllt hafi verið veittar ófullnægjandi kæruleiðbeiningar.

Í ljósi framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.