Dómstólar og réttarfar.

(Mál nr. 11976/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun um sakarkostnað sem felldur var á viðkomandi með dómi Hæstaréttar og samskiptum við ýmis stjórnvöld í kjölfarið.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um þann hluta kvörtunarinnar. Hvað samskipti við stjórnvöld snerti voru þau utan þess ársfrests sem áskilinn er til að kvarta til umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 21. desember sl., sem beinist að ákvörðun sakarkostnaður er felldur var á yður með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 498/2015 og samskiptum yðar við ýmis stjórnvöld í kjölfar þess.

Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið sakarkostnað vegna reksturs sakamáls fyrir Hæstarétti ranglega hafa verið felldan á yður þegar rétt hefði verið að ríkið bæri umþrættan kostnað. Í því sambandi bendið þér á að samkvæmt þágildandi 2. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skyldi kostnaður felldur á ríkissjóð en ekki ákærða í þeim tilfellum er ríkissaksóknari áfrýjaði héraðsdómi og viðurlög ekki þyngd með dómi Hæstaréttar.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans að jafnaði til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í b-lið 4. mgr. sömu greinar er sérstaklega tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um þann hluta kvörtunar yðar er beinist að ofangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 498/2015 og þá ákvörðun um sakarkostnað sem fellst í dóminum.

Samkvæmt kvörtun yðar hafið þér leitað til ýmissa stjórnvalda í því skyni að leita leiðréttingar umræddrar ákvörðunar, þ. á m. óskuðuð þér endurupptöku téðs dóms Hæstaréttar hjá endurupptökunefnd auk þess sem þér beinduð erindum til ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytisins. Með kvörtuninni fylgdi úrskurður endurupptökunefndar í máli nr. 13/2019, sem kveðinn var upp 26. nóvember 2020. Þá fylgdu bréf ríkissaksóknara 19. maí 2020 svo og bréf til yðar frá dómsmálaráðuneytinu 24. ágúst 2021 vegna málsins. Af þessu tilefni skal tekið fram að um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns er fjallað í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar segir í 2. mgr. að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.

Þar sem kvörtun yðar lýtur m.a. að úrlausnum og samskiptum yðar við ofangreind stjórnvöld, sem fram fóru utan ársfrestsins, eru ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði að þessu leyti tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.