Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11980/2022)

Kvartað var yfir afstöðu byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til erindis er laut að ætluðum óleyfisframkvæmdum vegna bílastæða.  

Ekki varð ráðið að málið hefði verið borið undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og því ekki skilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. janúar.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 15. desember sl. vegna afstöðu byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar  5. ágúst sl. til erindis yðar er laut að ætluðum óleyfisframkvæmdum vegna bílastæða við [...]. Í svari byggingarfulltrúa fólst sú afstaða að samþykki sveitarfélagsins lægi fyrir vegna framkvæmdanna og því væri ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Af kvörtun yðar verður ráðið að ágreiningur sé um hvort tilskilin leyfi hafi verið fyrir hendi og þér teljið rökstuðning byggingarfulltrúa óljósan.

Rétt er að taka fram að þér hafið að undanförnu lagt fram alls fjórar kvartanir til embættis umboðsmanns sem lúta að samskiptum yðar við byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Tvær þeirra lutu að töfum á afgreiðslu sveitarfélagsins á fyrrnefndu erindi og var þeim lokið þegar fyrir lá að sveitarfélagið ýmist hygðist eða hefði lokið afgreiðslu sinni á því. Tvær síðari kvartanirnar varða hins vegar efnislega afstöðu sveitarfélagsins til erindisins. Ekki verður annað ráðið en að kvörtun yðar nú sé sama efnis og kvörtun yðar í máli nr. 11805/2022 og lúti að sömu afstöðu byggingarfulltrúa. Málinu var lokið með bréfi til yðar 29. september sl. þar sem yður var bent á að í X. kafla laga nr. 160/2010, um mannvirki, væri fjallað um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög. Samkvæmt 59. gr. laganna sæti stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einnig var þar rakið að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, væri ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í málinu.

Af kvörtun yðar nú verður ekki ráðið að þér hafið freistað þess að kæra téða ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, svo sem yður var leiðbeint um í tengslum við fyrri kvörtun yðar. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.