Neytendamál.

(Mál nr. 11982/2022)

Kvartað var yfir viðskiptaháttum einkahlutafélags. 

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til einkahlutafélaga voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina. Var viðkomandi bent á að mögulega væri hægt að bera erindið upp við Neytendastofu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 22. desember sl. yfir viðskiptaháttum félagsins X ehf. áður Y.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997. X ehf. er einkahlutafélag sem komið er á fót með stofnsamningi samkvæmt ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Af þeim sökum og þar sem annað á ekki við um kvörtunarefni yðar bresta lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar.

Í ljósi efnis kvörtunar yðar skal þó bent á að lög nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, taka m.a. til viðskiptahátta og auglýsinga. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 57/2005 og 2. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu, fer Neytendastofa með framkvæmd laga nr. 57/2005. Þannig kann yður að vera fær sú leið að freista þess að beina erindi til Neytendastofu, ef þér viljið koma á framfæri ábendingu um viðskiptahætti, sem þér teljið óréttmæta.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um erindi yðar lokið.