Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11983/2022)

Kvartað var yfir aðbúnaði og aðstæðum fanga.  

Þar sem kvörtunin laut ekki að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beindist sérstaklega að viðkomandi eða varðaði hagsmuni hans umfram aðra voru ekki skilyrði til að taka hana til frekari meðferðar.  

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. janúar 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 25. desember sl. sem ráðið verður að lúti helst að aðbúnaði og aðstæðum fanga á Íslandi, sem þér teljið óviðunandi. Athugasemdir yðar eru af ýmsum toga en eiga það sammerkt að vera almenns eðlis. Á meðal þess sem þér bendið á er að í fangelsum séu vistaðir einstaklingar sem fremur ætti að vista á réttargeðdeild eða í öðrum úrræðum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti beinlínis snert hagsmuni hans eða réttindi getur allt að einu leitt til þess að mál sé tekið upp að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda þó ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is. Frá árinu 2018 hefur umboðs­maður jafnframt farið með svokallað OPCAT-eftirlit með stöðum þar sem dveljast einstaklingar sem eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Eftirlitið byggist á valfrjálsri bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða van­virðandi meðferð eða refsingu og miðar að því að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Ástæða þess að ég nefni þessa þætti í starfi umboðsmanns í bréfi til yðar er að upplýsingar sem koma fram í kvörtun yðar kunna að verða hafðar til hliðsjónar í því starfi.

Svo sem áður greinir verður ekki séð af kvörtun yðar að hún lúti að tiltekinni athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem beinist sérstaklega að yður eða varði beinlínis hagsmuni yðar umfram aðra. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Í kvörtun yðar er þó vikið að ætluðu viðbragðsleysi við kvörtunum yðar undan eigin aðstæðum í fangelsi án þess að fylgt hafi frekari upplýsingar eða gögn sem varpað geta ljósi á þær. Af því tilefni tel ég rétt að vekja athygli yðar á þeim möguleika að beina kvörtun til Fangelsismálastofnunar, með vísan til þess hlutverks sem stofnunin fer með, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Að fengnum viðbrögðum stofnunarinnar getið þér freistað þess að beina kvörtun til dómsmálaráðuneytisins sem fer með yfirstjórn mála er varða fullnustu refsinga, þ. á m. fangelsa eða eftir atvikum á grundvelli kæruheimildar í 1. mgr. 95. gr. sömu laga teljið þér tilefni til.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.