Útlendingar.

(Mál nr. 11986/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar vegna umsóknar um alþjóðlega vernd og mátti raða að stofnunin hefði hafnað að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar.  

Þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar hafði ekki verið kærð til kærunefndar útlendingamála voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. janúar 2023.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar, f.h. A, 27. desember sl. sem beinist að málsmeðferð Útlendingastofnunar vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd en af kvörtuninni verður ráðið að 5. desember sl. hafi Útlendingastofnun hafnað að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar. Af kvörtuninni verður einnig ráðið að í henni felist ábendingar um stjórnsýslu og starfshætti Útlendingastofnunar í tengslum við talsmenn er starfa á grundvelli laga nr. 80/2016, um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 80/2016 er heimilt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar samkvæmt lögunum til kærunefndar útlendingamála, þ. á m. ákvarðanir um hvort umsókn um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í kvörtun yðar er tekið fram að A hafi 22. desember sl. dregið til baka kæru sína til kærunefndar útlendingamála. Þannig verður ekki séð að fyrir liggi úrlausn æðra stjórnvalds í málinu. Af þessum sökum brestur lagaskilyrði til að sá hluti kvörtunar yðar, sem lýtur að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli A, verði tekinn til frekari meðferðar.

Svo sem áður greinir lúta athugasemdir yðar einnig að málsmeðferð og stjórnsýslu Útlendingastofnunar í tengslum við hlutverk talsmanna, sem starfa í þágu umsækjenda á grundvelli laga nr. 80/2016, um útlendinga. Af þessu tilefni tek ég fram að af fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál í tilefni af kvörtun fyrr en stjórnvöld, eftir atvikum æðra stjórnvald sem fer með yfirstjórn og eftirlit þess, hafa sjálf fengið færi á að taka afstöðu til þeirra athugasemda sem eru gerðar við störf þeirra. Í samræmi við þetta tel ég rétt að þér freistið þess fyrsta kastið að koma athugasemdum yðar á framfæri við forstjóra Útlendingastofnunar og eftir atvikum dómsmálaráðuneytið sem fer með yfirstjórn útlendingamála, þ. á m. Útlendingastofnunar.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.