Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11989/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu erindis hjá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. 

Umboðsmaður taldi ekki slíkan drátt hafa orðið á afgreiðslu málsins að ástæða væri til að taka það til skoðunar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. janúar 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 30. desember sl. yfir töfum á afgreiðslu byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar á erindi þar sem óskað er allra gagna vegna tilgreinds heimilisfangs svo og upplýsinga vegna reikninga er yður hafa borist frá Reykjavíkurborg og dagsekta sama stjórnvalds.

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum sendi lögmaður yðar tölvubréf 9. desember sl. til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem óskað var eftir afriti af öllum gögnum vegna tilgreinds heimilisfangs svo og upplýsinga vegna reiknings, sem fram kemur að yður hafi verið sendur í sama mánuði. Þá verður af gögnum, sem fylgdu kvörtuninni, ráðið að ofangreind ósk hafi verið ítrekuð 14. desember.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Það  hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkurt svigrúm í því efni. Í ljósi þess að síðustu samskipti fyrir hönd yðar fóru fram um miðjan síðasta mánuð verður ekki talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á málsmeðferðinni að nægt tilefni sé til skoðunar hjá umboðsmanni að svo stöddu. Ég tek þó fram að þér getið leitað til mín á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á svörum sveitarfélagsins.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.